136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

fæðingarorlof kvenna sem gengist hafa undir tæknifrjóvgun.

81. mál
[14:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra hæstv. fyrir svörin og þeim sem tekið hafa hér til máls. Ég ítreka það og tók það reyndar fram í fyrri ræðu minni að þetta er alveg sérstakt tilvik þar sem aðeins um eitt foreldri er að ræða. Það eru ekki tveir foreldrar í spilinu og ég tel að þessi hópur sé það sérstakur að rétt sé setja heimild inn í lögin fyrir þessar konur. Ég held að það skipti líka miklu því að um er að ræða konur sem lengi hafa borið von í brjósti um að eignast barn og oft er þetta eina barnið sem þær eignast. Auðvitað skiptir það máli af því við viljum horfa á málið í heildarsamhengi og tryggja rétt þessa litla hóps kvenna.

Ég setti fram frumvarp í fyrra þar sem ég lagði til breytingar á stöðu einstæðra mæðra og vitnaði í þá sérstöðu ef forsjárlausir foreldrar eða foreldrar með forræði sæktust ekki eftir að nýta sinn hluta fæðingarorlofsins væri möguleiki fyrir hitt foreldrið að sækja um að nýta þann rétt. Hins vegar geri ég mér fullkomlega grein fyrir því að sú umræða er mjög viðkvæm út frá sjónarmiðum um rétt barna til beggja foreldra og að foreldrar deili ábyrgð á uppeldi. Ég held að það sé önnur umræða sem við eigum kannski eftir að eiga seinna því að það er rétt að lög sem þessi þurfa alltaf að vera í endurskoðun. En auðvitað eru til foreldrar sem nýta sér hreinlega ekki rétt sinn og hann fellur niður. Hvað verður þá um þau börn?

En ég fagna orðum hæstv. ráðherra um að það komi til greina að endurskoða lögin og hvet til þess að það verði gert. Ég hvet jafnframt til þess að tekið verði sérstakt tillit til þessara kvenna úr því að sú lagabreyting og framför, leyfi ég mér að segja, er komin á að einhleypar konur geti gengist undir tæknifrjóvgun. Það verði þá vonandi gert fyrr en síðar.