136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

heimild til að draga opinber gjöld af launagreiðslum.

82. mál
[14:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn snýr að hæstv. fjármálaráðherra, hún snýst um heimild til að draga opinber gjöld af launagreiðslum, þ.e. heimild til skattstjóra og Innheimtustofnunar sveitarfélaga til að draga af launum launþega sem skulda skatt og meðlög. Hún snýst um 115. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Allir þeir, er hafa menn í þjónustu sinni og greiða laun fyrir starfa, sbr. 1. mgr. 92. gr., eru skyldir að kröfu innheimtumanns að halda eftir af kaupi launþega til lúkningar gjöldum þeirra aðila sem launþegar bera sjálfsskuldarábyrgð á og innheimta ber samkvæmt ákvæðum 112. gr. Aldrei skulu launagreiðendur þó halda eftir meira en nemur 75% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni til greiðslu á gjöldum samkvæmt lögum þessum.“

Þarna er gert ráð fyrir að innheimtumaður ríkisins og sveitarfélaga geti tekið allt að 75% af heildarlaunum launþega sem skulda þessum aðilum frá fyrri tíð og fyrirspurn mín snýst um það hvort ráðherra telji ástæðu til að endurskoða þetta ákvæði, t.d. með tilliti til launafjárhæðar. Því miður þekkjum við dæmi þess að skuldir fólks, hvort sem það er við Innheimtustofnun sveitarfélaga eða skattstjóra, eiga það til að vinda upp á sig. Fólk fer út í verktöku og forðast að vera launþegar af því að þá fer það í þann farveg að sá sem greiðir launin tekur allt að 75% af laununum, oft með þeim afleiðingum að fólk getur hreinlega ekki lifað af. Þetta á það til að vinda upp á sig þannig að fólk er fast í því að vera verktaki, greiða sjálfu sér laun, gerir ekki upp við skattinn, gerir ekki upp meðlög við Innheimtustofnun, lendir í vanda. Spurning mín snýst um það hvort ástæða sé til að miða þarna við einhverja hámarksfjárhæð launa.

Vissulega ber að gjalda keisaranum það sem keisarans er og fólk á auðvitað að borga skatta og skyldur en fólk verður líka að geta borgað. Það græðir enginn á því að menn forðist það að þiggja laun og fari fremur út í verktöku til þess að komast hjá því að gera upp gamlar skuldir. Ég velti því fyrir mér hvort þessi heimild eigi fremur að miðast við fjárhæð tekna til þess að auðvelda fólki að gera upp skuldir sínar og skatta.

Þessi fyrirspurn var sett fram áður en efnahagsástandið varð með þeim hætti sem það er í dag en við sjáum fram á talsverðar greiðsluþrengingar hjá mörgum og þetta er einn af þeim póstum sem þar á eftir að vega þungt. Mig langar því að kanna það hjá ráðherra hvort hann telji ástæðu til að skoða þetta eitthvað.