136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

heimild til að draga opinber gjöld af launagreiðslum.

82. mál
[14:52]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég held að kjarni málsins sé einmitt sá sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í lok ræðu sinnar, það er sá sveigjanleiki sem mér er kunnugt um að menn nota í flestum tilfellum. Þannig vill til að ég er í vinnuhópi á vegum hæstv. félagsmálaráðherra ásamt með nokkrum þingmönnum úr stjórnarliðinu þar sem við erum að skoða ýmis úrræði í ljósi efnahagsástandsins, úrræði sem geta hjálpað heimilunum. Þar var þetta sérstaklega rætt og við fengum m.a. á okkar fund Snorra Olsen, tollstjóra í Reykjavík, og hann fullyrti að sú regla sem þeir ynnu eftir væri, eins og hann orðaði það, giska mannúðleg. Menn sniðu stakk eftir vexti, reyndu að semja við aðila og í fæstum tilfellum væri það þannig að 75% væru dregin af launum fólks vegna þess að það liggur í augum uppi að fólk sem rekur heimili og stóra fjölskyldu á erfitt með að lifa af 25% af launum sínum. Ég sannfærðist um það á þessum fundi að sveigjanleiki (Forseti hringir.) er til staðar í þessu kerfi.