136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

heimild til að draga opinber gjöld af launagreiðslum.

82. mál
[14:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að það sé rétt hjá hv. þingmönnum sem telja að það þurfi eitthvert mikið ferli eða að það þurfi að taka langan tíma, að einhver vandkvæði séu á því og eitthvert sérstakt frumkvæði þurfi til þess að semja við innheimtumanninn. Ég held að fólki hljóti að vera ljóst hver það er sem er að innheimta og ef því sýnist það vera um of íþyngjandi á að vera mjög einfalt mál að nálgast innheimtumanninn og semja um niðurstöðuna á grundvelli þeirra reglugerðarákvæða sem ég las upp hér áðan. Ég held í öllu falli að það hljóti að vera einfaldara að semja við innheimtumanninn en að fara út í verktöku með því sem þá þarf að koma fram, með þeim skilyrðum sem um verktöku gilda og það sem er lagt á herðar þeim sem um verktökuna fara. Ég held að það sé alveg örugglega ekki flóknara eða krefjist meira frumkvæðis að semja við innheimtumanninn en að útbúa sig í útgerð eins og verktöku. Það má vera að einhverjir aðrir hlutir liggi að baki því að einstaklingar fari út í þessa verktöku en það eitt að innheimtan sé svo íþyngjandi vegna daglegra þarfa einstaklingsins og fjölskyldunnar.

Það er sjálfsagt að halda þessari umræðu áfram ef hv. þingmaður vill koma með aðra fyrirspurn um tölur og slíkt í þessu sambandi. Ég hlakka til þeirrar umræðu því að á næstunni verður því miður örugglega ekki minna um erfiðleika hjá þeim sem þegar er í erfiðleikum af þessu tagi.