136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Hæstv. forseti, góðir landsmenn. Ég hef óskað eftir því að flytja þinginu skýrslu mína um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að uppbyggingu og efnahagsaðgerðum hér á landi á næstunni.

Fáir hefðu trúað því fyrir nokkrum mánuðum að Íslendingar, ein ríkasta þjóð heims, mundu lenda í svo alvarlegum áföllum að við þyrftum að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sú djúpa og alvarlega lánsfjárkreppa sem nú ríður yfir heiminn hefur í einni hendingu gerbreytt hinni efnahagslegu heimsmynd og horfum í heimshagkerfinu. Allir sem fylgjast með fréttum að utan af efnahagsmálum og fjármálamörkuðum gera sér grein fyrir því að það sem nú er að gerast í umheiminum á sér ekki sinn líka, hefur ekki sést í marga áratugi. Áhrifin á Íslandi hafa komið fram, við erum að bregðast við þeim, en áhrifin á ýmsa aðra hafa ekki enn komið fram. Í slíkri stöðu hefur engin þjóð efni á að útiloka tilteknar leiðir við að leysa úr vanda sínum eða hafna boði um aðstoð, enda leita nú margar ríkisstjórnir til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og kunnugt er.

Margar af stöndugustu þjóðum heims róa nú lífróður til að bjarga því sem bjargað verður á fjármálamörkuðum sínum og beita í þeirri baráttu meðölum og aðferðum sem margir töldu fyrir ekki alls löngu að yrðu aldrei notuð aftur. Ástæða þess er einföld — ábyrg stjórnvöld láta ekki bankastarfsemi í landi sínu fara afskiptalaust á hliðina. Mikilvægi þessarar starfsemi fyrir allt efnahagskerfið í hverju landi er slíkt að stjórnvöld hafa talið sig knúin til að grípa inn í og lágmarka það tjón sem af hlýst.

Fáar þjóðir hafa gripið til jafnafgerandi og róttækra aðgerða og Íslendingar. Með því að veita Fjármálaeftirlitinu heimild til þess að taka yfir starfsemi bankanna og skipta upp starfsemi þeirra var tekið af skarið með að innlendur hluti bankastarfseminnar, þjónusta við almenning, venjulegt fólk, og fyrirtæki, færi ekki úr skorðum. Stjórnvöld hafa síðustu daga og vikur unnið linnulaust að því að tryggja verðmæti og búa svo um hnútana að þeir sem eiga kröfur á hendur bönkunum fái eins mikið í sinn hlut og hægt er miðað við þessar aðstæður.

Engum dylst að þessar aðgerðir hafa verið harkalegar en að sama skapi efast fáir um nauðsyn þeirra. Ekki var mótatkvæði á Alþingi þegar neyðarlögin voru samþykkt og ég hef fundið það á fjölmörgum samtölum og fundum sem ég hef átt að undanförnu við erlenda þjóðarleiðtoga og ráðamenn að aðgerðir okkar mæta skilningi og flestir átta sig á að enginn annar kostur var fyrir hendi í jafnþröngri stöðu og íslenska þjóðin var komin í.

Virðulegi forseti. Samhliða því að ríkisstjórnin og stjórnvöld unnu að viðbrögðum við falli bankanna var ljóst að við mættum engan tíma missa við að byrja endurreisn íslenska hagkerfisins og uppbyggingu til framtíðar. Ég vil gera stutta grein fyrir helstu verkefnum sem við stöndum frammi fyrir á næstu vikum og mánuðum og þeim miklu breytingum sem orðið hafa á efnahagsumgjörðinni hér á landi og því efnahagslega landslagi sem við blasir.

Það er sameiginlegt verkefni okkar hér á Alþingi að vinna okkur út úr þessum vanda. Við treystum því að þjóðin sýni því skilning sem óhjákvæmilegt er að gera á næstu vikum og mánuðum. Fyrir það fyrsta hefur verið mikill skortur á erlendum gjaldeyri í landinu vegna þeirra efnahagshremminga sem yfir okkur hafa gengið. Þetta þýðir að gengi íslensku krónunnar er afar veikt um þessar mundir með tilheyrandi áhrifum á verðlag og verðbólgu. Ég tel það vera stærsta einstaka verkefni ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar allrar að ná niður verðbólgu á næstu mánuðum og skapa þar með grundvöll til varanlegrar vaxtalækkunar í landinu. Til þess að ná þessu markmiði þurfum við að fá lán erlendis frá og gjaldeyri inn í landið til að styrkja gengið.

Í öðru lagi stöndum við frammi fyrir því að ríkissjóður verður fyrir miklu tekjutapi vegna þeirra áfalla sem dunið hafa á atvinnulífinu og sömuleiðis vegna nýrra útgjalda sem til koma vegna gjörbreyttrar stöðu. Halli á rekstri ríkissjóðs á næsta ári verður meiri en gert hafði verið ráð fyrir og allt útlit er fyrir að við verðum nokkur ár að vinna okkur út úr þeim hallarekstri. Ríkisstjórn og Alþingi þurfa að hefjast handa á næstunni við að marka sér stefnu varðandi fjárlög næsta árs og þar mun að sjálfsögðu reyna mjög á hv. fjárlaganefnd.

Í þriðja lagi verðum við að setja fjármagn inn í Seðlabankann og nýju bankana sem stofnaðir hafa verið á grunni hinna gömlu og koma þeim af stað. Hagkerfið mun styrkjast mikið þegar þeir verða komnir í fullan gang.

Í þessari stöðu er afar mikilvægt að hafa til reiðu sterkan sjóð í erlendri mynt til að lífga við gjaldeyrismarkaðinn, mynda kjölfestu og trúverðugleika fyrir gengisstefnu stjórnvalda og bregðast við óhóflegum sveiflum krónunnar.

Allt þetta krefst þess að við ráðumst í stórar lántökur erlendis. Það er engin óskastaða og engin ríkisstjórn vill skuldsetja sig eða ríkissjóð, komist hún á annað borð hjá því. Reynsla okkar Íslendinga af slíkum lántökum er ekki góð og fyrir um 15 til 20 árum höfðum við safnað upp slíkum skuldastabba að vaxtagreiðslur og afborganir voru einn af stærstu útgjaldaliðum á fjárlögum hvers árs. Sem betur fer höfðum við náð að snúa þeirri þróun við á síðustu 10 árum eða rúmlega það.

Ég lagði á það mikla áherslu sem fjármálaráðherra að greiða niður skuldir ríkissjóðs og sá árangur hafði náðst að íslenska ríkið var í reynd orðið skuldlaust. Það er því þyngra en tárum tekur að við séum í þeirri stöðu að þurfa að skuldsetja ríkissjóð á ný en það er því miður okkar eina leið út úr vandanum. Þó að það sé sérstaklega sárt að horfa á eftir jafngóðri stöðu og ríkissjóður var í, tel ég að einmitt sú áhersla sem lögð var á niðurgreiðslu skulda reynist okkur nú heilladrjúg og augljóst er hve vonlítil og erfið staða okkar hefði verið ef ríkissjóður hefði siglt inn í þennan efnahagslega ólgusjó skuldum hlaðinn.

Virðulegi forseti. Þegar íslensk stjórnvöld ámálguðu það við aðrar þjóðir að við gætum þurft á lántöku að halda kom alls staðar skýrt fram að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var talin forsenda fyrir slíkri aðstoð. Skilaboðin voru einfaldlega þau að kæmi sjóðurinn hingað og ynni með íslenskum stjórnvöldum að koma þjóðinni í gegnum þann vanda sem hún stendur frammi yrði litið á slíkt samstarf sem nauðsynlegt heilbrigðisvottorð og forsendu þess að okkur yrðu veitt lán.

Aðkoma sjóðsins er því ekki einasta mikilvæg ein og sér heldur opnar hún í leiðinni dyr sem ella hefðu staðið lokaðar. Þegar ríkisstjórnin tók afstöðu til þess hvort leita ætti til sjóðsins snerist spurningin því ekki um sjóðinn sjálfan, ágæti hans eða fyrri verk eingöngu, heldur hitt hvort við ættum yfirhöfuð að leita aðstoðar erlendis frá. Eins og ég fór yfir áðan voru hagsmunirnir af því að fá erlent lánsfé inn í landið svo gríðarlegir að valið var augljóst og stjórnarflokkarnir stóðu einhuga að baki þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Þær væntingar sem við höfðum gert okkur varðandi áhrif þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn færi í samstarf með okkur eru nú vonandi að rætast smám saman. Á Norðurlandaráðsþingi, sem fram fór í Helsinki fyrr í vikunni, átti ég fund með forsætisráðherrum hinna Norðurlandanna þar sem fram kom mikil samstaða. Ég met það svo að góðar líkur séu á að önnur Norðurlönd muni veita okkur aðstoð í formi lána sem mundi skipta okkur miklu. Sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisráðherranna vinnur nú að málinu.

Það var ómetanlegt að finna þann ríka og einlæga stuðning sem við eigum meðal okkar norrænu frændþjóða á þessum erfiðu tímum. Sérstaklega snerti mig sú samstaða og drengskapur sem frændur okkar Færeyingar sýndu með því að stíga fram og bjóðast til að veita okkur lán sem er mjög stórt á þeirra mælikvarða. Ég vil leyfa mér fyrir hönd þings og þjóðar að færa þakkir okkar til vina og frænda í Færeyjum fyrir þessa aðstoð og þann vinarhug sem hún bar vott um.

Á sama tíma og við finnum mikinn stuðning frá Norðurlöndunum stöndum við enn í deilum við bresku ríkisstjórnina. Eins og ég hef greint frá áður hefur íslenska ríkisstjórnin falið breskri lögfræðistofu að kanna hvort grundvöllur sé fyrir málssókn á hendur breska ríkinu vegna þeirrar fráleitu ákvörðunar þarlendra stjórnvalda að beita hryðjuverkalögum gegn íslenskum hagsmunum í Bretlandi. Sú ákvörðun hefur haft mjög örlagaríkar afleiðingar eins og við þekkjum, þar á meðal gagnvart aðilum sem komu hvergi nærri upphaflega málinum, þ.e. ágreiningi um eignir og skuldir Landsbanka Íslands. Ríkin tvö eiga í viðræðum um lausn á uppgjöri í tengslum við svonefnda Icesave-reikninga í Bretlandi og auðvitað verðum við að reyna að leysa þau mál, annaðhvort með samkomulagi eða með samkomulagi um að leggja það í úrskurð þriðja aðila eða einhvers konar dómstólameðferð. Það er von okkar að sameiginleg lausn finnist, það er mikilvægt að samskipti þessara gömlu vinaþjóða séu eðlileg. En íslensk stjórnvöld hafa verið alveg skýr hvað það varðar að við munum aldrei sætta okkur við skilmála sem leggja efnahag Íslendinga í rúst. Það verða Bretar að skilja.

Hæstv. forseti. Ég mun nú fara nánar yfir viðræður og samkomulag íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Viðræður fulltrúa okkar og sjóðsins um fyrirkomulag samstarfsins hafa staðið yfir um nokkurt skeið og unnin hefur verið ítarleg efnahagsáætlun í samráði við fulltrúa sjóðsins með það að markmiði að koma á efnahagslegum stöðugleika að nýju. Fyrir liggur samkomulag á milli íslenskra stjórnvalda og sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem verður borið undir stjórn sjóðsins til endanlegrar afgreiðslu vonandi eigi síðar en næstkomandi þriðjudag og verður samkomulagið einnig birt opinberlega hér á landi á næstu dögum.

Ég átti samtal við aðalframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins seint í gær og kvaðst hann ekki sjá meinbugi á því að mál þetta hlyti eðlilega afgreiðslu á næsta fundi stjórnar sjóðsins og fagna ég því. Samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins felur í sér lánveitingu frá sjóðnum að andvirði rúmlega tveggja milljarða bandaríkjadala og koma um 830 milljónir af þeirri fjárhæð til greiðslu þegar við staðfestingu stjórnar sjóðsins, vonandi strax í næstu viku.

Í kjölfar styrkingar gjaldeyrisforðans verður tekið upp fljótandi gengi eins og áður var. Væntum við þess að þótt krónan kunni að lækka eitthvað fyrst í stað muni gengið styrkjast og það jafnvel verulega þegar nægilegur trúverðugleiki verður kominn á markaðinn, gengi krónunnar orðið stöðugt og myndað með eðlilegum hætti í markaðsviðskiptum.

Meginmarkmið efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar eru í fyrsta lagi að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar með markvissum og öflugum aðgerðum. Í öðru lagi að undirbúa markvissar aðgerðir til að styrkja stöðu ríkissjóðs og í þriðja lagi að endurreisa íslenskt bankakerfi.

Til að framfylgja þessum markmiðum mun ríkisstjórnin fara í viðamiklar aðgerðir í peninga- og gengismálum og í ríkisfjármálunum. Þegar er að sjálfsögðu unnið hörðum höndum að því að endurreisa bankakerfið, eins og ég hef áður vikið að.

Hvað varðar stefnu ríkisstjórnarinnar í peninga- og gengismálum er brýnasta verkefnið, eins og allir gera sér grein fyrir, að tryggja stöðugleika krónunnar og búa í haginn fyrir gengishækkun í framhaldinu. Á síðustu dögunum fyrir bankakreppuna lækkaði gengi krónunnar mjög hratt. Þegar bankarnir hrundu leiddi það til þess að innlendi gjaldeyrismarkaðurinn lokaðist og enn frekari lækkun varð á gengi krónunnar. Lækkun gengisins og aukin verðbólga sem leiddi þar af, hafa þegar haft alvarleg áhrif á hag heimila og fyrirtækja vegna þess að stór hluti skulda þeirra var gengisbundinn eða vísitölutryggður. Til að koma í veg fyrir öldu gjaldþrota og auka enn á þann samdrátt sem þegar er orðinn teljum við það vera algjört forgangsverkefni að koma á stöðugu gengi krónunnar.

Þótt gengið sé nú vissulega langt undir raunvirði hefur hrun bankanna þriggja rýrt traust á gjaldmiðlinum og áhættan af verulegu útflæði fjármagns frá landinu er töluverð. Það á sérstaklega við vegna þeirra óvissu sem ríkir um lausafjárstöðu hins nýja bankakerfis. Af þeim ástæðum þarf að grípa til sérstakra aðgerða til að mæta þessari skammtímaáhættu.

Hækkun stýrivaxta í 18% sem Seðlabankinn kynnti í fyrradag er liður í þeirri viðleitni þar sem mjög mikilvægt er að koma í veg fyrir frekara fjármagnsútflæði eins og sakir standa. Samhliða því er að sjálfsögðu mikilvægt að tryggja að gjaldeyrir flæði inn til landsins eins og þessi aðgerð mun vonandi leiða til. Því til viðbótar verða reglur um lausafjárstýringu hertar og Seðlabankanum verður að sjálfsögðu gert kleift að beita stjórntækjum sínum af allri þeirri festu sem hann mun telja nauðsynlega.

Öllum er ljóst að stýrivaxtahækkun upp í 18% er afar viðkvæm aðgerð en hins vegar er brýnt að setja hana í samhengi við þær heildaraðgerðir sem verið er að fara út í í samstarfi ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Tilgangurinn er sá að festa nýtt gengi í sessi og koma þannig böndum á verðbólguna sem síðan mun leiða til þess að vextir geta lækkað hratt í kjölfarið. Það má líkja þessu við þá aðgerð sem ríkisstjórnin greip til í fyrra þegar þorskkvótinn var skertur. Það kostar að vísu tímabundinn sársauka en hugmyndin er sú að það skili sér ríkulega til baka þegar árangri er náð. Þess vegna verða menn að sætta sig við ákveðinn sársauka núna vegna þessarar vaxtahækkunar því að það er forsenda þess að árangur geti náðst og við komum á jafnvægi og betri lífskjörum hér að nýju.

Gripið hefur verið til tímabundinnar takmörkunar á fjármagnsviðskiptum og verður þeim viðhaldið eftir þörfum. Vissulega hafa slíkar takmarkanir ýmiss konar neikvæð áhrif og verða þær því afnumdar eins fljótt og auðið er. Stjórnvöld gera ráð fyrir að traust á gjaldeyrismarkaði með íslensku krónuna verði brátt endurvakið þannig að vextir geti lækkað fljótlega. Það getur gerst um leið og krónan verður stöðugri á gjaldeyrismarkaði og utanríkisviðskipti með vöru og þjónustu fara að skila afgangi.

Hvað varðar stefnu í ríkisfjármálum er ljóst að uppgjörið á þrotum bankanna mun leiða til mikillar byrði fyrir opinbera geirann og leiðir bráðabirgðamat í ljós að sá kostnaður geti numið allt að 85% af vergri landsframleiðslu. Hins vegar verður að hafa í huga að það er ekki ætlun ríkisins að eiga bankana til langframa. Lagt er inn hlutafé sem vonandi verður hægt að selja síðar meir, jafnvel með ávinningi, þannig að hér er vonandi um að ræða fjárfestingu sem á eftir að skila sér þó að hún birtist með þessum hætti í skuldatölum ríkisins. Það er reynslan annars staðar frá að þeir ríkissjóðir sem hafa þurft að gera þetta — og þeir eru margir í nálægum löndum — hafa komist skaðlaust frá slíkum aðgerðum þegar upp er staðið. Þar að auki er um að ræða innlendar skuldir sem eru annars eðlis en erlendar. Ofan á allt bætist aukinn halli á rekstri ríkissjóðs sem má reikna með að geti verið jafnvel um 10% af landsframleiðslu á næsta ári. Það má gera ráð fyrir því að brúttóskuldir ríkissjóðs muni hækka úr 29% af vergri landsframleiðslu í lok ársins 2007 í rúmlega 100% í lok ársins 2009. Þess vegna mun bankakreppan, sem er með þeim stærri sem upp hafa komið í heiminum, ef ekki sú stærsta, setja opinbera geiranum verulega þröng mörk og leggja byrðar á þjóðina á næstu árum.

Við gerum ekki ráð fyrir að grípa til sérstakra stórra aðgerða til að hindra sjálfvirka sveiflujöfnun á árinu 2009. Til þess að bregðast við aukinni skuldasöfnun hins opinbera verður langtímaáætlun um þessi mál enn þá mikilvægari en áður. Framkvæmd hennar mun hefjast á árinu 2010 og við áformum að lækka grunnhalla ríkissjóðs um 2–3% á ári allt fram til ársins 2013.

Virðulegi forseti. Sem betur fer býr íslenskt efnahagslíf yfir miklum sveigjanleika og líkt og í fyrri efnahagsáföllum má gera ráð fyrir því að hröð aðlögun í gengismálum skili sér fljótt í betra jafnvægi. Íslenska þjóðin hefur áður gengið í gegnum ótrúlega erfiðleika en þeir eru miklir nú upp á síðkastið og þeir hafa komið við marga. Hin miklu áföll hafa eðlilega vakið angist, ótta og reiði meðal fólks en því má ekki gleyma að undirstöður þjóðarbúsins eru firnasterkar og á þeim munum við byggja til framtíðar.

Við tökumst á við erfitt tímabil í efnahagslífi okkar á meðan við horfum framan í afleiðingarnar af falli bankanna en við munum að sjálfsögðu vinna okkur út úr þeim vanda eins og við höfum ávallt áður gert. Við munum taka þetta mál föstum tökum á öllum vígstöðvum. Það hefur áður verið sagt frá því að rannsókn fari í gang á hugsanlega sakhæfu athæfi og því verður að sjálfsögðu fylgt eftir. En í máli sem þessu koma jafnan upp alls kyns sögusagnir og getgátur. Ég vara við því að einhliða frásagnir séu hafðar sem hinn eini sannleikur um það sem gerst hefur í þessu máli. Það mun allt verða upplýst og lagt á borðið, atbeini einstakra fyrirtækja og manna, hvað gerðist, hvenær, og svo framvegis.

Ég fullyrði að allir sem komið hafa að málinu af hálfu hins opinbera hafa gert það af fullum heilindum með það fyrir augum að reyna fyrst að bjarga bönkunum en úr því sem komið er að vinna úr stöðunni eins vel og hægt er fyrir íslenska þjóð.