136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[10:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir þakkir í garð bræðraþjóðar okkar í Færeyjum. Það má kannski segja að hér eigi við hið fornkveðna að góðar þyki mér gjafir þínar en betri þó vinátta þín. Ég held að það sé ekki síður dýrmætt að þeir sýni okkur þetta hugarfar og stuðning en aðstoðin sem slík, sem þó er mikilvæg og ótrúlega rausnarleg miðað við stærð færeyska hagkerfisins.

Hæstv. forsætisráðherra fór með kunnuglegan inngang um hamfarirnar í heiminum, um áhrif hinnar miklu heimskreppu fjármagnsins. Vissulega er það allt rétt sem sagt er um að ný-frjálshyggjukapítalisminn, hinn hnattvæddi græðgiskapítalismi, er að hrynja inn í sjálfan sig með skelfilegum afleiðingum víða um heim og ekki síst á Íslandi.

Það leitar æ meira á mig hvort þessi einhliða nálgun, hinn klassíski inngangur hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar um orsakir vandans sé ekki angi af hinu sama, rót af því sem kom okkur þangað sem við erum nú, hættulegur af þeim ástæðum, þ.e. þessi undarlegi skortur á allri heilbrigðri sjálfsgagnrýni. Það dugar ekki fyrir okkur Íslendinga að reyna að kenna óhagstæðum ytri skilyrðum um, það er stórhættulegt. Við skiljum aldrei þessa hluti. Við komumst aldrei í gegnum þá ef við erum ekki menn til að horfast í augu við okkur sjálf og viðurkenna ábyrgð okkar á því sem gerst hefur hér. Höfuðábyrgðin á því sem hefur gerst á Íslandi hvílir á herðum Íslendinga sjálfra þótt vissulega hafi þessar þrengingar allar gert illt verra og átt sinn þátt í að hraða endalokum á ástandi sem gat þó aldrei varað til lengdar, að reka eitt þjóðfélag endalaust með bullandi viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun, jafnvægisleysi í hagstjórn og öðru slíku.

Ég verð var við að bæði erlendir blaðamenn og stjórnmálamenn taka sérstaklega eftir þessum málflutningi íslensku ríkisstjórnarinnar. Ég hef oft fengið spurninguna á undanförnum dögum: Lítið þið Íslendingar svo á að þið berið enga ábyrgð á þessu sjálfir? Það undrar fólk og ég held að menn skynji hversu óhyggilegt það er og lítt til þess fallið að skilja hlutina, að læra af þeim, að axla ábyrgð og horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Allra síst gengur það fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Íslandi sem stjórnað hefur í sterkum meirihlutaríkisstjórnum í meira en 17 ár að reyna algerlega að koma sér hjá því að líta í eigin barm, eða þá flokka aðra sem með honum hafa starfað. Þá læra menn ekki mikið þessu ef þeir finna sífellt nýja sökudólga og helst í útlöndum fyrir öllum þeim mistökum sem þeir hafa sjálfir gert.

Ég tel jafnframt að það sé óumflýjanlegt að ræða hvernig menn hafa staðið að málum á síðustu dögum og vikum hvað varðar miðlun upplýsinga og að gera þjóðinni heiðarlega og rétta grein fyrir því hvað er að gerast. Það er alveg með endemum hversu misvísandi eða beinlínis rangar upplýsingar eru reiddar fram og hvernig yfirlýsingar einstakra ráðherra eða forustumanna á þessu sviði stangast á. Ég tek nýjasta dæmið um það, þ.e. að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi verið skilyrði þess að aðrar þjóðir vildu veita okkur aðstoð. Ekki voru Færeyingar mikið að láta það vefjast fyrir sér og ekki heldur Norðmenn.

Það er rangt sem hér hefur verið reynt að halda fram að Norðmenn hafi nokkurn tíma sett það fram sem skilyrði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og prógramm af hans hálfu sem við værum komnir í væri forsenda þess að þeir mundu aðstoða okkur. Ég fullyrði það hér og hef ekki lakari heimildir um það en hver annar að fyrstu dagana í októbermánuði var slíkt ekki einu sinni nefnt á nafn af hálfu Norðmanna þegar við þá var rætt um málið, enda Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þá sama og ekkert kominn inn í myndina. Það er vissulega rétt að eftir að fréttir bárust af því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri með sendinefnd á Íslandi og að viðræður væru farnar í gang að menn fóru að tengja þetta saman. Þó er það svo að nú á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki þegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttur spurði Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, að þessu svaraði hann endurtekið á þá leið að það væri ekki skilyrði af hálfu Norðmanna. Hann endurtók í svari við fyrirspurn hv. þingmanns það sem hann hafði áður sagt í ræðu að það gerði það auðveldara fyrir Noreg. Með öðrum orðum var það ekki skilyrði þess að Norðmenn hefðu rætt við okkur um aðstoð. Af hverju er þá verið að halda svona löguðu fram? Af hverju er ekki einfaldlega byggt á réttum skjalfestum upplýsingum, beinum tilvitnunum í menn þar sem þeir svara spurningum eins og í þessu tilviki? Er það ekki heillavænlegra eða telja menn sér það leyfilegt til heimabrúks af því að þeir eru í vandræðum með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fyrsta inngrip hans í íslensk efnahagsmál að færa hlutina svona til? Að búa sér skjól í því að menn hafi engan annan kost átt en Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og að það hafi verið skilyrði af hálfu annarra þjóða til að koma okkur til aðstoðar þegar það liggur fyrir að það er ekki sett þannig fram af ráðamönnum þeirra hinna sömu þjóða?

Hvernig er það með vaxtahækkunina hjá IMF, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Ég er með í höndunum þrjár skjalfestar útgáfur af sannleikanum frá hæstv. ríkisstjórn og Seðlabankanum. Það er með endemum. Össur Skarphéðinsson, hæstv. iðnaðarráðherra, sagði á Alþingi í fyrradag, með leyfi forseta:

„Seðlabankinn tekur þessa ákvörðun.“

Það er Seðlabanki Íslands sem ákveður stýrivaxtahækkunina samkvæmt hæstv. iðnaðarráðherra.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður ekki skilin öðruvísi en svo að hún telji að það hafi verið ríkisstjórnin sem átti tillöguna, samanber t.d. frétt Vísis í gær, með leyfi forseta:

„Stýrivaxtahækkun ekki skilyrði IMF heldur tillaga ríkisstjórnarinnar.“

Það er útgáfa nr. 2 á sannleikanum. En í Helsinki í fyrradag sagði Árni Mathiesen: „Hækkun stýrivaxta er eitt af skilyrðum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti fyrir lánveitingum.“

Sama segir í fréttatilkynningu Seðlabankans frá sama degi. Þrjár skjalfestar mismunandi útgáfur af sannleikanum í þessu máli frá hæstv. ríkisstjórn.

Þetta gengur ekki, svona geta menn ekki hegðað sér. Halda menn að það létti leikinn að ná einhverjum trúnaði úti í samfélaginu þegar ráðherrar í ríkisstjórn og ráðamenn umgangast sannleikann með þessum hætti? Það er bara tvennt til í þessu efni: Annaðhvort hafa menn unnið heimavinnuna sína svo illa að þeir vita ekki hvað raunverulega er á ferðinni eða að menn hagræða hlutunum vísvitandi. Það er bara þannig. Sama má segja að sé uppi varðandi hvort okkur Íslendingum sé heimilt að upplýsa um skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þótt það séu kannski aðallega tvær útgáfur af sannleikanum. Því hefur verið haldið fram að svo sé ekki og það sé að ósk stjórnar sjóðsins að þessum skilmálum skuli haldið leyndum.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði t.d. á blaðamannafundi 24. október síðastliðinn:

„Það er erfitt fyrir okkur að geta ekki gert grein fyrir inntakinu í þessu [þ.e. aðgerðaráætluninni] en ástæðan er sú að þeir sem sitja í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vilja ekki lesa um inntakið í þessu í fjölmiðlum.“ Síðar segir hún: „Það er ekki þannig að við viljum ekki segja frá inntakinu í þessu. Það eru stjórnarmennirnir í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem vilja fá að sjá þetta áður en það fer inn í fjölmiðla.“ Síðar segir hæstv. utanríkisráðherra: „Þó að við birtum þetta ekki í dag er það ekki vegna þess að við viljum það ekki ...“

Á blaðamannafundi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hélt sjálfur klukkutíma á eftir blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar þennan nefnda dag upplýstu þeir hins vegar miklu meira um málið en ríkisstjórn Íslands upplýsti almenning á Íslandi um, hvað þá Alþingi. Utanríkismálanefnd Alþingis hefur ekki fengið að sjá einn einasta skriflegan texta um þetta mál og ríkir þar þó trúnaður. Hverju sætir það? Hvers konar vinnubrögð eru þetta?

Síðan kemur einfaldlega texti frá upplýsingafulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gær til fréttastofu Ríkisútvarpsins þar sem segir að það sé ákvörðun ríkisstjórnar Íslands hvort áætlunin verði gerð opinber. Hvað er hér á ferðinni? Þetta gengur ekki, þetta er ekki boðlegt. Ef menn hafa misskilið eitthvað í þessum efnum eiga þeir að koma fram og leiðrétta það. Þarna hafi orðið einhver misskilningur eða ef eitthvað annað og verra er á ferðinni bið ég guð að hjálpa mönnum. Í örlagamálum af þessu tagi geta menn ekki leyft sér vinnubrögð af þessu tagi. Svo kemur vaxtahækkunin eins og fallhamar í hausinn á Íslendingum og menn láta eins og það komi þeim á óvart.

Kom það svo mjög á óvart? Ég hef ástæðu til að ætla að svo hafi ekki verið. Hvað segja þeir sem mest hafa hrópað á lækkun vaxta á Íslandi undanfarin ár en jafnframt fögnuðu aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og vinnumarkaðarins? Er þetta nokkuð nema forsmekkur þess sem koma skal? Er ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn núna að semja nýja áætlun fyrir Ísland í aðalatriðum? Jú, ég held það.

Ég gagnrýni ríkisstjórn Íslands fyrir að hafa staðið illa að þeim þætti málsins sem varðar að veita réttar, traustar og fullnægjandi upplýsingar til þjóðarinnar. Það er ekki nóg að halda endalausa blaðamannafundi ef ekkert kemur fram á þeim nema tilefni til einhvers endalauss misskilnings. Þjóðin á heimtingu á því að fá upplýsingar um þessi mál.

Ég gagnrýni líka verkstjórnina sem hér hefur viðgengist. Hvernig stendur á því að ekki hefur verið sett upp einhvers konar stjórnstöð aðgerða sem allir þræðir liggja til og þar sem ráðið er ráðum í innsta herbergi? Af hverju eru þessir hlutir á hlaupum á milli húsa í miðbænum og tætingslegt mjög hvernig að þessu er staðið, að því er best verður séð? Ég gagnrýni hæstv. forsætisráðherra sem margoft hefur talað um hug sinn og stjórnar sinnar til að upplýsa þessa hluti, talað um hvítbók í þeim efnum. Hann hefur hins vegar ekki rætt það mál einu orði t.d. við okkur í stjórnarandstöðunni hvernig hann ætlar að standa að því. Það er eitt af því sem setja verður í farveg og það fljótt. Ég gagnrýni að ekki er enn búið að skipa í varanleg bankaráð hinna nýju ríkisbanka sem þó var talað um að yrði gert innan fárra daga. Það er mjög brýnt að vinna hratt og fumlaust að þessum verkefnum og það verður að ganga eitthvað undan mönnum. Það er bara ekki nógu gott ef ríkisstjórnina vantar allt „drive“ eins og mundi verða sagt á ódýrri íslensku í dag. Það er bara ekki nógu gott.

Það er margt að mínu mati sem er óumflýjanlegt að takast á við af miklum krafti næstu daga. Það þarf t.d. að fá fram í dagsljósið eitthvert mat, einhverjar áætlanir um forsendur fjárlaga og þjóðarbúskaparins næstu ár. Það er mjög brýnt til að menn geti síðan farið að takast á við hvað við getum gert til þess að afstýra fjöldaatvinnuleysi og þar með landflótta. Það er allra brýnasta málið að snúa sér að því og til þess þarf að skýrast hver staðan er og hvað ríkissjóður, sveitarfélögin og aðrir aðilar verða í aðstöðu til að leggja af mörkum. Stendur ekki til að setja aukið fé t.d. í Tækniþróunarsjóð og Nýsköpunarsjóð? Stendur til að hafa Byggðastofnun áfram peningalausa við þessar aðstæður? Er það gæfulegt að hún geti ekki einu sinni veitt lágmarkslán og fyrirgreiðslu til fyrirtækja sem þó eru starfandi en þurfa á því að halda, eru að þorna upp vegna ástandsins? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera gagnvart sveitarfélögunum sem verða að vera eitt megintækið okkar í því að hafa okkur í gegnum þetta, bæði vegna þeirrar félagslegu þjónustu og nærþjónustunnar sem þau veita íbúunum en líka sem stórir vinnuveitendur og sem þátttakendur í því að reyna að halda uppi störfum og eftirspurn í samfélaginu? Þá hluti verður að vinna hratt og mér finnst þessi mánuður sem nú kveður hafa farið fyrir of lítið, tíminn hafa hlaupið háskalega frá okkur og verkstjórnin hefði þurft að vera fumlausari og markvissari.

Auðvitað geta menn sagt að lokum, þegar þeir bera sjálfir ábyrgð á því hvernig þá er komið, að engir aðrir kostir séu eftir í stöðunni. En það er kannski harkalegasta sjálfsgagnrýnin sem menn geta ástundað, að þurfa að koma fram og segja að svo illa hafi málum verið komið á Íslandi — ef menn telja svo — og ekkert annað eftir en að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er einhver hroðalegasta lýsing á eigin frammistöðu sem einn forsætisráðherra þjóðar getur gefið, að þannig hafi hann og flokkur hans komið málum með þægum meðreiðarsveinum eftir 17 ára ráðsmennsku íslenska samfélagsins. Það er ekki glæsilegt.

Það er mikið verkefni fram undan og við verðum að snúa okkur að því að reyna að byggja upp traust á nýjan leik og koma á eðlilegu ástandi í samfélaginu. Það verður að mínu mati aðeins gert með tvennum hætti og hvoru tveggja er brýnt: Að rannsaka þessa hluti algerlega ofan í kjölinn til að tryggja að þeir beri ábyrgð og axli hana sem það eiga að gera, pólitíska, lagalega og siðferðislega og um leið og aðstæður bjóða þarf þjóðin að fá að kjósa sér nýtt þing.