136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[11:43]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mér finnst að nú sé kominn tími til að tala skýrar en við höfum gert hér í umræðum undanfarinna daga. Þar á ég einkum við þá eðlilegu kröfu okkar og þjóðarinnar að ráðamenn, sérstaklega forsætisráðherra, fari nú að tala mjög skýrt um það hvert við stefnum.

Ég er iðulega spurður að því hver skuldabyrði þjóðarinnar á næstu árum muni verða. Það er auðvitað ekki hægt að svara því nema með einhverjum dæmum eins og málum er komið. Ríkisstjórnin hefur ekki upplýst okkur um hvert við stefnum í þeim efnum, þ.e. hvað líklegt er að lendi á íslensku þjóðinni. Við forustumenn stjórnarandstöðunnar höfum ekki fengið að sjá þau gögn sem ríkisstjórnin sendi til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ég tók hins vegar eftir því í fréttum í gærkvöldi að verið var að tala um að líkleg vaxtaprósenta af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri 4,98 eða 4,99%, þ.e. tæp 5%. Ég geri nú kröfu til þess að hæstv. forsætisráðherra fari að útskýra með dæmum fyrir þjóðinni og okkur í hvað við stefnum. Ef rétt er að vextir af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins muni verða tæp 5% eða 5% — það er ákaflega þægileg tala til útreikninga — erum við að tala um tæpa 13 milljarða í vaxtabyrði af því láni einu. Þess vegna spyr þjóðin okkur þingmenn að því: Hvert stefnum við? Það er sama hvort ég kem á bílaverkstæðið mitt eða heimsæki önnur fyrirtæki sem ég þarf að eiga viðskipti við, alls staðar spyr fólks þess sama: Guðjón, í hvað stefnum við? Undanfarna daga hef ég svarað þessu með dæmum og sagt eitthvað á þessa leið: Það er ekkert ólíklegt að við stefnum í heildarskuldir upp á 700 milljarða eða þaðan af meira.

Mér finnst að hæstv. forsætisráðherra eigi að segja þjóðinni hvaða framtíð bíður hennar að því er varðar þær skuldir sem á henni lenda. Ef við tækjum á okkur 700 milljarða væri vaxtagreiðsla, miðað við 5% vexti, 35 milljarðar á ári. Ef heildarskuldir nálgast 900 milljarða er um að ræða um 45 milljarða í vexti. Það eru svo háar tölur sem ég nefni hér að þær vekja mönnum mikinn ugg í brjósti. Allt að einu þurfum við að fá skýrari svör. Forsætisráðherra skuldar okkur öllum að tala skýrt.

Hæstv. forsætisráðherra upplýsti í ræðu sinni að það hefði gengið vel að ræða við samkollegana á Norðurlöndunum, þeir mundu leitast við að styðja Ísland með lánveitingum o.s.frv. Hvaða kjör telur hæstv. forsætisráðherra að við eigum von á ef Norðurlandaþjóðirnar styðja okkur? Það verður að fara að segja þjóðinni í hvað við stefnum, það er ekki hægt að tala svona fram og til baka um að allir vilji lána okkur nema kannski Rússar. Það var frétt um það í Fiskaren í morgun að Rússar væru búnir að missa allan áhuga á að lána Íslendingum fé. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort sú frétt sé rétt. Getur hann upplýst þjóðina um hvort viðræður við Rússa séu dottnar upp fyrir, að engar séu líkur á að við fáum lánafyrirgreiðslu þar og þá hvers vegna? Hafa hæstv. ráðherrar vitneskju um það?

Nei, nú verður hæstv. forsætisráðherra og forustumenn ríkisstjórnarinnar að fara að gefa skýr svör um í hvað við stefnum. Það er ekki hægt að tala um þetta endalaust í heilan mánuð með þeirri óvissu sem verið hefur. Það verður að fara að skýra frá því hverjar skuldbindingar okkar eru, hverjar eignir gömlu bankanna eru og þá eignir nýju bankanna. Hvar lenda ábyrgðir á ríkissjóði í því sambandi? Þegar maður reynir að átta sig á skuldastöðunni sem við gætum átt von á eru tölurnar skelfilegar. Við verðum hins vegar að tala af raunsæi við fólkið í landinu, segja eins og er.

Íslenska þjóðin hefur oft áður lent í þrengingum en ævinlega unnið sig út úr þeim. Þó að tímarnir sem fram undan eru verði erfiðir hef ég fulla trú á því að við munum vinna okkur út úr þeirri stöðu. Það breytir hins vegar ekki því að það verður að fara að ræða þessa hluti meira opinskátt en verið hefur. Það er í raun og veru ömurlegt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að hafa setið á þó nokkrum fundum með ráðamönnum ríkisstjórnarinnar og það er ekki einu sinni hægt að upplýsa okkur í trúnaði um það hvað var í því bréfi sem ríkisstjórnin sendi til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Við forustumenn stjórnarandstöðunnar lögðum sérstaka áherslu á það í viðræðum á síðasta fundi við hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra að ekki yrði farið í stýrivaxtahækkun hér á landi, að ekki yrði vegið að atvinnulífinu og skuldsettum fjölskyldum í landinu með þeim hætti. Hæstv. utanríkisráðherra talaði um það áðan að verja yrði stöðu heimilanna. Ég tek alveg undir þau orð en ég get ekki séð að vaxtastefna ríkisstjórnarinnar tryggi það, þvert á móti. Það er bæði vegið að heimilunum í landinu og atvinnulífinu, einkum minni fyrirtækjum.

Ég verð að líta svoleiðis á að komið hafi fram bein krafa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að vextir yrðu hækkaðir hér, það er ekki hægt að draga neina aðra ályktun af því. Varla værum við með 18% stýrivexti, hátt í 30% dráttarvexti, nema vegna þess að þyrftum að mæta ákveðnum kröfum. Er það þá svo að athafnaleysi ríkisstjórnarinnar í heilan mánuð hafi orðið til þess að við verðum að ganga að þeim kosti, kannski þeim eina sem við eigum völ á, sem er lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með þessum skilyrðum? Ég vil fá að vita hvort það voru skilyrðin.

Ég hef hins vegar tekið eftir því að hæstv. menntamálaráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er andvíg vaxtahækkuninni, ef ég hef skilið rétt það sem eftir henni var haft. Ég spyr um það m.a. vegna þeirra umræðna sem farið hafa fram hér í þingi um hvort stjórnarliðar séu samstiga í stefnunni um hækkun vaxta.

Mesta vandamál okkar á komandi tímum er staða heimilanna í landinu og staða atvinnurekstrarins. Þess vegna þurfum við á öllu okkar að halda til að koma í veg fyrir að atvinnuleysi aukist mikið í landinu. Það kallar auðvitað á að ríki og jafnvel sveitarfélög þurfi að taka verulega áhættu með fjárlögin á næsta ári til þess að reyna að tryggja að atvinnustigið fari ekki niður úr öllu valdi. Það er mjög sárt að horfa á það sem nú er að gerast á byggingarmarkaðnum þar sem hvert fyrirtækið á fætur öðru segir upp starfsmönnum sínum. Það stefnir allt í það, því miður, að atvinnuleysi verði mikið eftir áramót. Þess vegna held ég að við séum í þeirri stöðu að þurfa að afgreiða fjárlögin á næsta ári með verulegum halla, sennilega yfir 100 milljarða, vegna þess að við getum ekki leyft okkur að færa atvinnustigið enn þá neðar en það sem það stefnir nú í. Þó að ríkissjóður verði rekinn með verulegum halla næstu árin held ég að árið 2009 þurfi menn að taka þá áhættu.

Ég fæ ekki séð hvernig atvinnufyrirtækin í landinu eiga að geta rekið sig undir því vaxtaokri sem þau standa núna frammi fyrir, ég kem ómögulega auga á það. Ég skora á forustumenn ríkisstjórnarinnar að leita allra leiða til þess að forðast fjöldagjaldþrot fyrirtækja og reyna að styðja við atvinnustarfsemina af öllum mætti.

Við sjáum að eignastaða fjölskyldnanna er að hruni komin. Húsnæðisverð lækkar á sama tíma og skuldirnar hækka. Hver fjölskyldan á fætur annarri stendur nú frammi fyrir því með hverri vikunni sem líður að eignir hennar eru algjörlega uppurnar. Þær fjölskyldur sem áttu 10–15 milljónir í húsnæði sínu fyrir örfáum mánuðum síðan eiga nú ekki neitt, ekkert eigið fé. Það er mjög alvarlegt og ég hef lagt til að reynt verði að bregðast við þeirri stöðu með sértækum aðgerðum.

Við í Frjálslynda flokknum höfum margsinnis lagt það til að brugðist verði við í þjóðfélaginu með því að auka tekjur þjóðfélagsins. Við höfum lagt til að það verði gert þar sem auðveldast er að grípa til þess, í sjávarútveginum, með því að auka þorskveiðina. Þar eigum við skipin, þar höfum við mannskapinn, þar höfum við vinnslustöðvarnar og fiskurinn er í sjónum. Ég hef stundum orðað það svo til hughreystingar fyrir þá sem eru með hroll gagnvart því veiða meiri þorsk að þeir geti þá litið á að við séum að taka lán í lífríkinu. Ég hef hins vegar engar sérstakar áhyggjur af því þó að við mundum auka þorskveiðina verulega. Ég tel að nauðsynlegt sé að grípa til allra tiltækra ráða til þess að efla tekjustöðuna og atvinnustigið í þjóðfélaginu. Ég mælist til þess við hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann fari nú að taka þá ákvörðun að auka þorskveiðina. Það kann vel að vera skynsamlegt að gera það í áföngum og leggja til 30, 40 þúsund tonna veiði og jafnvel meira síðar þegar líður á næsta ár.

Það er ekki hægt að bjóða upp á kyrrstöðu eins og þá sem við erum í þar sem menn sjá ekkert fram undan annað en samdráttinn, tekjumissinn og kostnaðinn við lántökur. Ríkisstjórnin verður að leggja fram áætlun um hvernig hún ætlar að standa með fólkinu í landinu og með atvinnulífinu. Annað er ekki boðlegt í núverandi stöðu, hæstv. forseti.