136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:15]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Mér skilst að fyrirkomulag þessarar umræðu sé þannig að mér sé heimilt að tala í annað sinn í tíu mínútur þegar mér hentar og ég hef ákveðið að gera það núna til að svara þeim spurningum sem fram hafa komið. Mér þykir vænt um að formaður Framsóknarflokksins skuli vera mættur vegna þess að hér er haldið fram af hálfu ýmissa ræðumanna ósannindum um það hvernig að þessum málum hefur verið staðið gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég vil nota tækifærið til að fara aðeins betur yfir það mál ef það hefur ekki dugað sem fór á milli mín og utanríkisráðherra með formönnum stjórnmálaflokkanna þegar við kynntum þeim þetta að morgni síðasta föstudags.

Þá kom reyndar fram af okkar hálfu að vaxtahækkun væri í spilunum. En hvernig er þetta úr garði gert? Það er þannig að ríkisstjórnin og menn á hennar vegum hafa komist að tiltekinni niðurstöðu um efnahagsáætlun á grundvelli þess sem við höfum lagt fram um það hvernig bregðast eigi við þeim vanda sem nú horfir við. Á grundvelli slíkrar efnahagsáætlunar er gjaldeyrissjóðurinn reiðubúinn að lána Íslendingum ríflega 2 milljarða dollara. Frá þessu verður gengið formlega með bréfi af Íslands hálfu á morgun. Ég tók það fram í upphafsræðu minni að þetta skjal yrði að sjálfsögðu birt um leið og hægt er.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er stór og mikil alþjóðastofnun og innan veggja og dyra hans gilda ákveðnar leikreglur. Það er ekki þannig að hver og ein ríkisstjórn sem óskar eftir samstarfi við gjaldeyrissjóðinn geti þegar henni sjálfri hentar spilað út öllum upplýsingum um hvað aðilum hefur farið í milli. Þess vegna verðum við að taka tillit til þess að á vettvangi gjaldeyrissjóðsins er núna verið að leggja síðustu hönd á tiltekna skýrslu um þetta mál sem fara mun til aðildarríkjanna og lögð mun verða fyrir stjórn sjóðsins. Jafnskjótt og þessum formsatriðum er fullnægt innan húss hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum munum við að sjálfsögðu birta þetta plagg því að það er ekkert leyniplagg. Ekkert frekar en ýmislegt annað sem gert er í Stjórnarráðinu og síðan birt þegar tímabært er og allar aðstæður leyfa.

Í þessu plaggi er vikið að vaxtamálum og Seðlabankinn hefur núna séð ástæðu til að gera sérstaka athugasemd og um hana spurði hv. formaður Framsóknarflokksins. Hjá ríkisstjórninni og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var farið vel yfir þetta atriði á þeim fundum sem fram fóru á milli okkar sérfræðinga og þeirra, milli okkar ráðherranna og sendinefndarinnar, og í þessum viðræðum öllum var að sjálfsögðu fulltrúi Seðlabankans, þ.e. á sérfræðingastiginu. Við gerum ráð fyrir að á morgun fari þetta bréf frá Íslandi undirritað af hálfu ríkisstjórnarinnar og af hálfu Seðlabankans. Þetta er sem sagt þríhliða samstarf ríkisstjórnar, Seðlabanka og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þó að sjálfsögðu séu það fyrst og fremst ríkisstjórnin og gjaldeyrissjóðurinn sem unnu þessa vinnu og komu að þessari niðurstöðu og Seðlabankanum ber að sjálfsögðu að virða hana og það hefur komið fram að það mun bankinn gera.

Ég hef látið það koma fram að vonandi verður þessi vaxtahækkun ekki langtímaaðgerð, vonandi verður hún skammtímaaðgerð — það má vel vera að hv. þm. Ögmundi Jónassyni finnist út í hött að gera sér vonir um það — og að spekúlantarnir, sem hann talar stundum um, muni bregðast við og gera sínar ráðstafanir á grundvelli þess að þetta verði hugsanlega skammtímaaðgerð en ekki langtíma. En hvað er verið að gera með þessari aðgerð? Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni hér. Það er verið að sporna við fótum á gjaldeyrismarkaðnum. Það er verið að búa gjaldeyrismarkaðinn þannig úr garði að hann geti myndað nýtt alvörugengi fyrir íslensku krónuna (GÁ: Heldurðu að það hafist?) þannig að þar verði sú viðspyrna sem þarf að vera til að koma böndum á verðbólguna til að vextirnir geti lækkað á nýjan leik. Þetta er ekki flókið orsakasamhengi. Þetta skilja allir, m.a. þau samtök úti í bæ sem voru langt á undan ríkisstjórninni að krefjast þess að við færum í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þeir sem voru að biðja um þetta samstarf vissu vel hvað í því fólst, bæði stjórnmálaflokkar, samtök aðila vinnumarkaðarins og fleiri. Allir vissu að það yrði að grípa í taumana á gjaldeyrismarkaðnum með því að sporna við með þeim hætti sem áhrifaríkastur væri. (BjH: Samfylkingin líka?) Auðvitað vissu allir þetta og sérstaklega þeir sem unnu að undirbúningi þessa skjals að það kynni að þurfa að grípa til vaxtahækkunar og við höfum ekkert afsalað okkur réttinum til að hækka eða lækka vexti. En það er ekki hægt að tala um þetta sem ófrávíkjanlegt skilyrði af hálfu gjaldeyrissjóðsins. Það eru engin ófrávíkjanleg skilyrði í þessu samkomulagi. Þetta er samstarfsáætlun okkar og gjaldeyrissjóðsins um það hvernig eigi að koma okkur út úr þessum vanda. Vinstri grænir eru eini stjórnmálaflokkurinn hér sem hefur virkilega horn í síðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og telur að aðkoma hans að þessu sé til bölvunar. Við teljum það ekki sem sitjum í öðrum stjórnmálaflokkum á Alþingi. Ég hef skilið það svo að a.m.k. hinir stjórnarandstöðuflokkarnir auk stjórnarflokkanna teldu að þessi aðkoma sjóðsins væri frekar til að hjálpa okkur, frekar til hins betra, til góðs. (Gripið fram í.) Frekar til góðs en ills.

Nú eru fleiri lönd að leita til gjaldeyrissjóðsins. Það er rétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Meðal annars Ungverjaland sem er búið að vera í Evrópusambandinu í ein fjögur eða fimm ár. Þannig er málum komið þar núna vegna þess að efnahagsaðstæður hafa breyst mjög til hins verra og þeir telja líka rétt að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við munum ábyggilega vera í góðu samstarfi við þá. Ungverjar hafa líka verið fórnarlömb hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu eins og mörg önnur ný efnahagskerfi sem hafa verð að rísa úr öskustónni á undanförnum árum þó að margt sé öðruvísi þar en hér. Við óskum þeim að sjálfsögðu alls hins besta. En það er rangt að gefa sér það, eins og hv. þingmenn Vinstri grænna gera og forustumenn þeirra, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé að skipta sér af okkar málum til að koma illu til leiðar. Til að berja á almenningi, til að refsa íslensku þjóðinni, til að pína launþega eða eitthvað slíkt. Það er viðhorfið hjá hv. þingmönnum að það geti aldrei neitt gott frá þeirri stofnun komið og að allt sem þaðan kemur sé til bölvunar. (Gripið fram í.) Því miður er þetta viðhorfið, hv. þm. Ögmundur Jónasson. Það hefur margoft komið fram bæði í umræðunni um Ísland og önnur lönd að allt sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur nærri sé til bölvunar fyrir viðkomandi lönd. Þetta tel ég ekki rétt. Ég tel að þetta sé rangt og ég tel að það muni sannast í samstarfi okkar við sjóðinn.

Við munum komast í gegnum þetta vandamálatímabil tiltölulega hratt, m.a. vegna þess að við njótum aðstoðar gjaldeyrissjóðsins. Við erum að tala um tveggja ára prógramm með sjóðnum, tveggja ára efnahagsáætlun sem mun vonandi leiða til þess að eftir 18 mánuði eða tvö ár verðum við komin í gegnum það versta, hagvöxtur farinn að ná sér á strik á nýjan leik og tekjur og kaupmáttur að hækka aftur. Þetta er auðvitað hugmyndin. En til þess að þetta geti gengið upp þarf að teyga beiskan bikar í upphafi, þ.e. þessa vaxtahækkun sem hefur alveg ákveðinn tilgang og allir sem hafa hugsað þetta mál til enda skilja mætavel. Það kemur alveg glöggt fram t.d. hjá aðilum vinnumarkaðarins þó að þeir séu ekki ánægðir með þetta. Það er enginn ánægður með að hækka vexti í 18%. En jafnvel þótt menn séu ekki ánægðir með þetta skilja menn hugsunina á bak við það.

Ég ætla síðan að svara hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrst ég er kominn í ræðustólinn en hann spurði um allt annað mál. Hann spurði hvort viðræður við Rússa um gjaldeyrislán væru hættar eða hvort þær hefðu dottið upp fyrir. Það er ekki svo en það hefur verið gert hlé á þeim viðræðum. Gert er ráð fyrir að þeim verði haldið áfram hér í Reykjavík áður en mjög langt um líður. En hitt er rétt og það hefur komið fram í blöðum og viðtölum m.a. við rússneska ráðamenn að staðan er mjög breytt frá því að við byrjuðum fyrst að tala við þá. Staðan í Rússlandi er gjörbreytt, Rússar hafa orðið fyrir þungu áfalli vegna gjaldeyriskreppunnar. Stórlækkað olíuverð núna kemur mjög illa við Rússland þannig að staða þeirra er breytt. Og auðvitað er ástandið hjá okkur allt annað núna en það var þegar við byrjuðum að tala við þá í sumar sem var að mínu frumkvæði. Þá voru aðstæður hér allt aðrar og það getur vel verið að þeir líti það mál öðrum augum vegna breyttra aðstæðna núna bæði hjá sér og líka hér hjá okkur.