136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði haldið að hæstv. forsætisráðherra hefði annað þarfara að gera en að eyða stórum hluta ræðutíma síns hér í að afflytja stefnu og viðhorf annarra flokka. Ég held að hann hafi alveg fullar hendur með að tala fyrir sinni ríkisstjórn og geti bara leyft okkur sem höfum aðrar áherslur að útskýra okkar sjónarmið.

Það er rétt að á fundi okkar formanna flokkanna í Ráðherrabústaðnum síðastliðinn föstudag upplýsti ríkisstjórnin að inni í þessum samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væri það sem þá var kallað sveigjanleg vaxtastefna sem þýddi vissulega að vextir gætu líka hækkað. Ég spurði nánar að því hvað það þýddi. Má jafnvel búast við því að vextir fari upp í það sem þeir voru áður, 15,5%? Forsætisráðherra ýjaði að því að það mætti jafnvel búast við því eða meiru. (Gripið fram í.) En okkur var ekki trúað fyrir því að þá væri væntanlega til þegar í textadrögum krafa um 18% stýrivexti. Mér finnst það ómerkilegt að fá svo fréttir af því síðar meir að í þessum drögum sem þá hafa væntanlega verið til skyldu (Forseti hringir.) þeir hlutir standa en okkur var ekki treyst fyrir því. Utanríkismálanefnd Alþingis var ekki treyst fyrir því og hefur engan texta séð um þessi mál enn þá. Þetta (Forseti hringir.) er ekki eins og á að standa að málunum.