136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:26]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má sjálfsagt deila um vinnubrögð í þessu eins og ýmsu öðru. En við gáfum það fyllilega til kynna og það var reyndar sagt hreint út að vaxtahækkanir væru í spilinu í þessu máli. Það var ekki farið neitt í felur með það en það var heldur ekki komin niðurstaða um endanlegu töluna í því efni.

En aðalatriðið er það, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skrifaði á heimasíðu sína, að ef menn vilja stuðla að því að koma gjaldeyrismarkaðnum hér í lag þannig að við getum myndað nýtt gengi og á þeirri forsendu barið verðbólguna niður, þá verða menn að sætta sig við þessa tímabundnu aðgerð. Mér þótti vænt um að sjá að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skrifaði með þeim hætti á heimasíðu sína.