136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:28]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Því tæki verður áreiðanlega beitt líka. Beita þarf öllum ráðum hér við þær aðstæður sem upp eru komnar. Það þýðir ekki að afhjúpa slíka fordóma gagnvart einni alþjóðastofnun sem við höfum verið aðilar að frá 1945 eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerir. Var það alltaf vitleysa hjá okkur að taka lán í þau fjögur skipti sem við höfum áður tekið lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Var það vitleysa hjá okkur að taka svo virkan þátt í starfi sjóðsins eins og við höfum gert undanfarin rúm 60 ár? Við höfum tekið fullan þátt í þessu starfi. Við höfum átt fulltrúa í stjórn sjóðsins ítrekað. Við höfum tekið fullan þátt í starfi á norrænu skrifstofunni sem núna er norræn-baltnesk skrifstofa. Áttum við ekki bara að segja okkur úr lögum við sjóðinn ef við hefðum ákveðið það að við mundum aldrei nokkurn tímann vilja leita til hans um fyrirgreiðslu? Þetta gengur ekkert upp, við erum aðilar að heiðarlegu alþjóðlegu samstarfi þarna og þurfum ekkert að skammast okkur fyrir það. (Gripið fram í.)