136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:30]
Horfa

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra sérstaklega. Þetta er óvenjuleg stund að sjá forsætisráðherra ganga upp í ræðustól Alþingis og í rauninni hýða ráðherra sína hvern af öðrum sem farið hafa með rangt mál í fjölmiðlum. Hæstv. forsætisráðherra staðfestir það hér að það var þríhliða samkomulag að vextirnir skyldu fara í 18%. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti 18% sem skilyrði, Seðlabankinn varð að éta það fóður, ríkisstjórnin varð að éta það fóður og fýla kannski grön og allt það en þetta var ákvörðun sem menn stóðu frammi fyrir til að þetta færi í gang. Hæstv. forsætisráðherra hefur staðfest þetta hér.

Ég bendi því aftur á — ég fór yfir það í ræðu minni að hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson fór vísvitandi með rangt mál í fyrradag — að hér er ég með upplýsingar þar sem hæstv. utanríkisráðherra segir, með leyfi forseta, „að hækkunin hafi ekki verið ákvörðun eða skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins“. Nú segir hæstv. forsætisráðherra að þetta hafi verið samkomulag þriggja aðila (Forseti hringir.) og ég þakka honum fyrir það, það var heiðarlegt, og ég held að hæstv. forsætisráðherra þurfi nú að tala við ráðherra sína og biðja þá að segja satt.