136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:31]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við að einn einasti ráðherra hafi sagt ósatt í þessu máli. Það að þetta skuli vera þríhliða samkomulag eða fyrst og fremst samkomulag milli ríkisstjórnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þetta mál þýðir ekki að sett hafi verið skilyrði. Ef það hefðu verið einhver óaðgengileg skilyrði, sem ekki er um að tefla í þessu, hefðum við ekki gert neitt samkomulag. Það er bara svo einfalt mál. Þetta er samstarf en ekki það að aðilar séu að setja hver öðrum stólinn fyrir dyrnar. Við hefðum alveg getað sleppt því að gera þetta. Við hefðum alveg getað sleppt því að leita út fyrir landsteinana um samstarf. Við hefðum getað látið það eiga sig að tala við aðrar þjóðir. Við hefðum getað tekið upp hætti Norður-Kóreu og einangrað okkur algerlega ef menn hefðu talið það fyrir bestu. En vitanlega gerum við það ekki. Vitanlega viljum við vera í góðu samstarfi við aðrar þjóðir, vitanlega viljum við vera í samstarfi við alþjóðastofnanir þar sem það á við og það á vissulega við í þessu efni.