136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:32]
Horfa

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg furðuleg ræða hjá hæstv. forsætisráðherra um einangrun og allt það. Allir eru sammála um það og líka Framsóknarflokkurinn að menn verði að opna þessar dyr. En af hverju eru skilyrðin þá ekki sett á borðið? Af hverju komast hæstv. ráðherrar upp með að segja að þetta séu ekki nein skilyrði af hálfu sjóðsins? Nú liggur það fyrir og hæstv. forsætisráðherra segir að þetta séu aðgengileg skilyrði. Ég er ekki viss um að þetta séu aðgengileg skilyrði. Þetta kom Vilhjálmi Egilssyni og Gylfa Arnbjörnssyni jafnmikið á óvart og okkur framsóknarmönnum. Þeir segja að það hafi verið búið að ræða það hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að það hafi ekki átt að gera þetta svona, ekki keyra vextina svona upp. Ég segi hérna, hæstv. forsætisráðherra: Kann svo að fara að eftir nokkra daga stöndum við frammi fyrir því að þessi gjörð hafi fyrst og fremst valdið ringulreið og hruni? Ég óttast það því miður en vona sannarlega að þetta hafi góð áhrif, en mér heyrist að margir hagfræðingar nútímans séu á því að þetta muni hafa vond áhrif.

Ég þakka að lokum hæstv. forsætisráðherra fyrir (Forseti hringir.) að staðfesta það við þingheim og þjóð að nokkrir ráðherra hans fóru með rangt mál. Þetta var þríhliða samkomulag, menn stóðu frammi fyrir skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um 18%.