136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:33]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort mér tekst að útskýra þetta eitthvað betur. Við munum senda frá Íslandi skjal sem kallað er „Letter of Intent“, væntanlega á morgun. Það skjal er yfirlýsing um hvað við ætlum að gera á næstunni og lýsing á aðstæðum hér heima. (GÁ: Láttu okkur heyra það hérna.) Það skjal mun verða birt (GÁ: Leyfðu okkur heyra það fyrst.) við fyrsta mögulega tækifæri. Það sagði ég strax í upphafi en auðvitað verðum við að fara að þeim lögmálum sem gilda hjá sjóðnum um þetta. Það skjal mun verða birt. Það er okkar yfirlýsing um þetta og á þeirri forsendu hyggst sjóðurinn taka þátt í þessu með okkur, leggja okkur lið en leggja ekki steina í okkar götu og jafnframt veita okkur þá lánafyrirgreiðslu sem rætt hefur verið um.