136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:34]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um afstöðu okkar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég vil vekja athygli á því að ég held að ég hafi lesið hverja einustu ræðu sem utanríkisráðherra Íslands hefur flutt á fundum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á undanförnum árum eða hefur verið flutt í okkar nafni því að iðulega höfum við komið fram undir merkjum Norðurlandanna. Ég hef tekið þessa umræðu upp á þingi og skýrt frá því á hvern veg ég tel að við ættum að breyta áherslum okkar þar inni. Hæstv. forsætisráðherra upplýsti áðan að þjóðinni og þinginu yrði greint frá samningsforsendum gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þegar tímabært væri og aðstæður leyfðu. Ríkisstjórnin er fyrir okkar hönd að semja upp á 2 milljarða dala lán og talað er um að fjórfalda það lán áður en upp er staðið. Því er neitað að gera okkur grein fyrir því í þinginu (Forseti hringir.) á hvaða forsendum gengið er til þessara samninga og opnuð leið fyrir okkur, lýðræðisleg leið, til að við sem líka erum fulltrúar þjóðarinnar fengjum möguleika á að taka þátt í (Forseti hringir.) stefnumótuninni sjálfri en látum ekki mata okkur á þann hátt sem hér er gert.