136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:56]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að fyrir lægi áætlun stjórnvalda um hvernig þau ætla að vinna sig út úr þeim efnahagsörðugleikum sem við er að etja. Sú áætlun er á leiðinni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og verður send á morgun. Það hefur komið fram í umræðu af hálfu hæstv. forsætisráðherra og það er sú áætlun sem hér um ræðir.

Í annan stað hefur einnig komið fram að meginefni þessarar áætlunar er lántaka hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Á vordögum var samþykkt mjög rík heimild af hálfu Alþingis til stjórnvalda um lántöku og ég gef mér að þessi lántaka rúmist innan þeirrar heimildar. Á hinn bóginn; ef eitthvað í þessum samningi kallar á frekari aðkomu Alþingis gef ég mér að það verði leitað eftir staðfestingu Alþingis á því þegar og ef samningur milli ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemst á.