136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:00]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í grundvallaratriðum er það þannig að það er ríkisstjórnin sem gerir alþjóðasamninga. Þegar um tilteknar skuldbindingar er að ræða þarf Alþingi að staðfesta það ella getur hún ekki skuldbundið íslenska þjóð og íslenskt ríki. Þannig er þetta alla jafna unnið, kannski full ástæða til að upplýsa um það hér. Okkur hefur verið kynnt þetta í grundvallaratriðum og ég hef ekki séð neitt í þessum samningi sem er andhverft við það sem jafnan gildir. (Gripið fram í.) Fyrir liggur heimild til handa ríkisstjórninni að taka lán upp á fimm milljarða evra, ef ég man þessa tölu rétt, og sú tala sem um ræðir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er klárlega innan þess ramma.