136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ekki er hægt að taka sjálfstæða umræðu um það að hve miklu leyti skuldbindingin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum heyrir undir þá lánsheimild sem fengin var í vor með sérstakri samþykkt Alþingis. Það er áreiðanlega umdeilanlegt vegna þess að í greinargerð með því frumvarpi eru skilmálar um til hvaða þarfa sú lánveiting má fara. Það getum við tekið umræðu um síðar.

Hitt segi ég að hér er um gríðarlegar skuldbindingar að ræða. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni að hann hefði ekki séð þessa áætlun. Það þýðir í mínum huga að hún hefur ekki verið lögð fyrir þingflokka stjórnarflokkanna. Hún var ekki lögð fyrir utanríkismálanefnd sem eðli málsins samkvæmt á að fjalla um mál er varða samninga við önnur ríki — í trúnaði meira að segja — það hefur ekki verið gert. Ég deili á þessa málsmeðferð, ég tel að hún sé ekki sæmandi í lýðræðissamfélagi. Það er lýðræðislegur réttur alþingismanna allra að taka umræðu um þessa skilmála (Forseti hringir.) og vera eftir atvikum sammála þeim eða ósammála.