136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:03]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt í þessu sem kannski er vert að ræða. Hið fyrra er það að í vor var samþykkt að taka stórt lán til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn. Þessi lántaka er algerlega í takti við það.

Í annan stað nefndi ég hér áðan að samningsgerð af hálfu ríkisins er á hendi ríkisstjórnar og samningar eru staðfestir eftir á, það er meginreglan og þannig hefur verið unnið. Í þessu tilviki hafa a.m.k. þingflokkum ríkisstjórnarinnar, formönnum stjórnarandstöðuflokkanna og efnahags- og skattanefnd verið kynnt í grundvallaratriðum efni þess samnings eða þeirrar áætlunar sem um ræðir. Ég sé því, virðulegi forseti, ekkert í þessari umræðu sem hefur kallað á jafnofsafengin viðbrögð stjórnarandstöðunnar og hér hafa verið í dag (Gripið fram í: Ég kannast ekki við ofsafengin viðbrögð.) — nei, ég átti ekki við hv. þingmann, ég átti kannski við aðra. Ég held að ekkert í þessari umræðu kalli á það að stjórnarandstaðan saki menn um (Forseti hringir.) ósannindi, lygi o.s.frv. (Forseti hringir.) Það er ekkert sem hér hefur komið fram sem réttlætir slíkar ásakanir.