136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:04]
Horfa

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður stendur hér og veifar höndunum og segir: Hvaða tillögur aðrar en vaxtahækkun upp í 18%?

Nú vill svo til að strax og þetta gerðist, þetta þríhliða samkomulag, gagnrýndi fréttaveitan Bloomberg þessa vaxtahækkun. Minnti á Bretland á tíunda áratugnum og Asíu — þegar vextir voru að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins keyrðir úr 5% í 15% féll pundið um 22% og það varð strax að snúa frá þessu. Þessi fréttaveita óttast þessa aðgerð.

Fram hafa komið mjög merkilegir hagfræðingar, Jón Daníelsson, Gunnar Tómasson, Lilja Mósesdóttir, svo að ég nefni einhver þeirra, og þau vekja athygli á því að við búum ekki í eftirspurnarverðbólgu og að þetta geti haft öfug áhrif. Margir telja að miklu skynsamlegra hefði verið að lækka vexti og ganga til hliðaraðgerða, þannig að um þetta er deilt út frá hagfræðilegu sjónarhorni og sýnist sitt hverjum.

Við Íslendingar þekkjum það að það að hækka vexti hefur yfirleitt haft hér öfug áhrif, verðbólga vex, vandinn vex. (Forseti hringir.) Ég hefði því viljað sjá aðrar aðgerðir og furða mig á því að ríkisstjórn og þingmenn (Forseti hringir.) sem fögnuðu vaxtalækkun fyrir nokkrum dögum skuli nú blessa 18% vexti.