136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:51]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir málefnalegt svar við andsvari mínu. Ég skildi hins vegar ekki efnislega alveg hvað þingmaðurinn átti við vegna þess að ég held að öllum hafi verið ljóst frá upphafi, um leið og sú staðreynd blasti við að bankarnir hér allir þrír væru farnir á hliðina að grípa þyrfti til mjög drastískra og róttækra aðgerða. Og sú aðgerð sem blasti við öllum sem fylgdust með umræðunni, bæði stjórnmálamönnum, sérfræðingum, hagfræðingum og öllum öðrum, var að sjálfsögðu að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég held að sú staðreynd hafi ekkert verið að þvælast fyrir eða trufla samningsstöðu okkar gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Vegna þess eins og komið hefur fram í umræðunni í dag, bæði af hálfu hæstv. utanríkisráðherra og forsætisráðherra, þá eru tveir aðilar að semja þarna og þær aðgerðir sem verið var kynna í (Forseti hringir.) morgun eru aðgerðir sem við hefðum alla jafna þurft að (Forseti hringir.) fara í sjálf án aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.