136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:54]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Við stöndum frammi fyrir miklum erfiðleikum núna eins og skýrslan sem hæstv. forsætisráðherra flutti hér, og menn hafa verið að ræða í dag, ber með sér. Það er svolítið skondið við þá umræðu að framsóknarmenn með hv. þm. Bjarna Harðarson í broddi fylkingar reyna að hvítþvo sig af því ástandi sem þjóðfélagið er í. (Gripið fram í.) Já. Málið er að helmingaskiptareglan var við lýði þegar bankarnir voru einkavæddir á Íslandi og hver var hinn aðilinn í þeirri ríkisstjórn sem þá var við völd annar en framsóknarmenn? Þannig að ábyrgðin er … (Gripið fram í.) Það kemur þér bara ekkert við. Ábyrgð framsóknarmanna er mikil í þessu máli og þeir bera ásamt Sjálfstæðisflokknum fulla ábyrgð. (Gripið fram í: Eðlilega.) Og einkavinavæðing bankanna var hluti af því sem Framsóknarflokkurinn tók þátt í að gera. Mér finnst sjálfsagt að halda þessu til haga þegar menn tala um að allir beri ábyrgð. Auðvitað ber hæstv. viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar ábyrgð sem hefur kannski lítið verið fjallað um enn þá. Auðvitað ber Samfylkingin mikla ábyrgð í heild sinni. En það er alveg gagnslaust fyrir hv. þm. Bjarna Harðarson að reyna að telja fólki trú um að framsóknarmenn séu alveg saklausir af þessu.