136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:56]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að lýsa nokkurri furðu yfir ræðu hv. þm. Grétars Mars Jónssonar. Ég hef hvorki í ræðum mínum núna né í fyrri málflutningi haldið fram sakleysi Framsóknarflokksins. Ég hef einmitt vakið athygli á því oftar en einu sinni í þessu ræðupúlti að við þurfum að ganga í gegnum ákveðið endurmat á því sem við gerðum. En það er aftur á móti rétt að ég kom ekki í ræðupúlt núna við þessar aðstæður til að fara í gegnum sérstök syndaregistur einstakra flokka, hvorki Framsóknarflokksins né annarra flokka. Ég kom til að ræða stöðuna eins og hún er núna og þá framtíðarsýn sem væri sem ég treysti Framsóknarflokknum betur en mörgum öðrum flokkum til að leiða okkur í vegna þess að ég held að nú séu runnir upp þeir tímar sem þær hugsjónir sem hann hefur staðið fyrir í 90 ára sögu sinni muni verða þjóðinni affarasælastar.

Ég held reyndar, ef menn vilja endilega vera hér með syndaregistur, að nær væri að hv. þm. Grétar Mar Jónsson svaraði þingheimi því í hvaða stjórnmálaflokki hann var og hvar hann stóð í pólitík þegar EES-samningurinn milli Íslands og Brussel var samþykktur sem er í rauninni afdrifaríkastur í þeirri stöðu sem við erum í núna. Það eru ekki bara orð mín fyrir því, ég hef skilið orð forsætisráðherra þannig að hann líti þetta nokkuð líkum augum.