136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:58]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að framsóknarmenn bera auðvitað ábyrgð hafandi setið við stjórnvölinn í tólf ár. Það er rétt. Það bera allir ábyrgð sem hafa komið að þessu. Stjórnarandstaðan á þeim tíma ber líka mjög mikla ábyrgð (Gripið fram í: Nú?) vegna þess að þrátt fyrir margs konar málþóf sem hún hélt uppi hér þá skulu menn leita, og það verður eins og að leita að nál í heystakki, að einhverju í þeirri gagnrýni frá Samfylkingunni eða vinstri grænum á þeim tíma sem hefði á einhvern hátt gagnast til þess að við færum ekki í þau spor sem við erum í núna. Hér flutu allir sofandi að feigðarósi þó að ég skuli ekki segja um hvað hv. þm. Grétar Mar Jónsson hugsaði þá suður í Sandgerði, en hann hefur ekki svarað spurningu minni um hvar hann stóð í pólitík þegar (GMJ: Ég var að segja það, maður) (Gripið fram í: Hv. þingmaður hlustaði ekki á hann.) EES-samningurinn var gerður og hvaða ábyrgð (Forseti hringir.) hann vill bera á því.