136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:00]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra umræðna sem hér hafa farið fram um ábyrgð þá ætla ég ekki að fjalla um það hverjir bera ábyrgð því það liggur nokkuð ljóst fyrir. Hins vegar vil ég segja þetta: Ég ber enga ábyrgð á því ástandi sem hér er. Ég ber enga ábyrgð á því að við skulum hafa haldið áfram með ónýtan gjaldmiðil svo lengi sem raun ber vitni sem í raun er helsta orsök þess hruns sem hefur orðið. Ég ber enga ábyrgð á þeirri stýrivaxtavitleysu sem hér hefur viðgengist undanfarin ár. Allan tímann frá því að krónan var sett á flot eða í rúm sex ár hef ég gagnrýnt það og ég held þeirri gagnrýni áfram. Það er glórulaus aðgerð að ætla að halda áfram svo sem ríkisstjórnin er að boða og hæstv. forsætisráðherra kom inn á í skýrslu sinni.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að eftir að hafa hlustað á skýrslu hæstv. forsætisráðherra þá fannst mér ég eiginlega enn vera staddur í fyrsta þætti þess sorgarleiks sem hófst þann 6. október og að í raun hefðu mál ekki þokast áfram, við værum á svipuðum stað og úrræðin væru ákaflega takmörkuð. Í skýrslu hæstv. forsætisráðherra er um að ræða ákveðna greiningu á helstu verkefnum sem hann hefði getað flutt og flutti að mörgu leyti með sama hætti þann örlagaríka dag 6. október sl. Það var talað um gjaldeyrisskort, að ná niður verðbólgu, um tekjutap ríkissjóðs, að setja fjármagn í Seðlabanka Íslands og stórar lántökur erlendis. Nú hlustum við á nýja skýrslu um sömu viðfangsefni. Það eina sem hefur verið gert er að fengin hafa verið einhver vilyrði fyrir lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum upp á rúmlega 2 milljarða Bandaríkjadala eftir því sem hæstv. forsætisráðherra upplýsti. Hann upplýsti jafnframt að við ættum áfram að hafa fljótandi gjaldmiðil og að við ættum að hafa sem hæsta stýrivexti en þeir voru hækkaðir um 6 prósentustig í gær, upp í 18%. Til hvers? Til að reyna að viðhalda þeim lottógjaldmiðli og lottósjónarmiðum sem hafa verið allsráðandi í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem nú er við lýði. Á sama tíma eru seðlabankar vítt og breitt í okkar heimshluta að lækka stýrivexti. Í gær voru stýrivextir í Bandaríkjunum lækkaðir verulega og eru nú 1%. Á sama tíma eru stýrivextir á Íslandi 18% og hækkuðu í gær um heil 6 prósentustig.

Hæstv. forsætisráðherra heldur því fram og það virðist vera stefna ríkisstjórnarinnar að með þessum aðgerðum geti orðið hröð aðlögun í gengismálum. Hvað þýðir það? Það er greinilega von ríkisstjórnarinnar að enn og aftur muni streyma inn gjaldeyrir erlendis frá til að reyna að halda við þeim gjaldmiðli sem hér er um að ræða.

Samkvæmt hagfréttum er verðbólgan nú án húsnæðisliðar 17,8% og hefur ekki verið hærri síðan á síðustu öld. Í gær var tilkynnt um uppsagnir mikils fjölda starfsmanna ýmissa fyrirtækja, m.a. fyrirtækja í byggingariðnaðinum. Í dag er tilkynnt um að öllum starfsmönnum sjónvarpsstöðvarinnar Skjás eins hafi verið sagt upp og að öllum starfsmönnum í Fjörfiski á Húsavík hafi verið sagt upp. Atvinnuleysi hér er töluvert og fer vaxandi og verður gríðarlega mikið ef ekki verður brugðist við með ákveðnum aðgerðum. Talsmenn þess gjaldmiðils sem við höfum og þeirrar gjaldmiðilsstefnu sem við höfum haldið hafa jafnan haft það á orði að með þeim hætti hefðum við ákveðinn sveigjanleika sem gæfi okkur svigrúm þannig að við hefðum m.a. hátt atvinnustig og hafa bent á löndin í Evrópusambandinu þar sem um hið gagnstæða væri að ræða. Allt þetta er einhver orðræða sem á ekki við og þarna var verið að tala á röngum forsendum. Ég bendi á, virðulegi forseti, að atvinnuleysi í Danmörku í dag er 1,6% en hæstv. forsætisráðherra hefur talað um að atvinnuleysi hér geti farið allt upp í 10% eða þar yfir.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson benti réttilega á í góðri ræðu sinni fyrr í dag að brýna nauðsyn bæri til þess við núverandi aðstæður að draga úr ríkisútgjöldum. Hann benti á að nú þyrfti Alþingi að taka til höndunum og skera niður hjá sér, m.a. að koma á öðrum skikk en að þingmenn væru með sérstaka aðstoðarmenn svo sem samþykkt var í fyrra og ég var raunar eini alþingismaðurinn sem greiddi atkvæði gegn því að þannig væri farið að, taldi það vera ranga stefnu. Hann talaði um að skera niður risnu og fríðindi og ég vil taka undir þau sjónarmið en ég segi líka: Það þarf að skera í burtu ofureftirlaun æðstu embættismanna ríkisins, hæstaréttardómara, forseta og ráðherra. Það þurfa allir að sitja við sama borð hverjir svo sem það eru, allir opinberir starfsmenn eiga að sitja og búa við sömu lífeyrisréttindi.

Ég tek undir þau sjónarmið að við þurfum að draga stórkostlega úr umsvifum utanríkisþjónustunnar, leggja niður óþörf sendiráð eins og ég hef haldið fram í mörg ár að við ættum að gera. Við eigum að leggja niður varnarmálastofnun og taka það inn í ráðuneytið sem minni háttar afstöðu. Við eigum að hætta þessu fokdýra gersamlega nauðsynjalausa loftrýmiseftirliti. Til hvers er það? Þetta er bara bruðl. Það er bara verið að henda peningum.

Varðandi þá stýrivaxtahækkun sem hefur verið ákveðin þá tel ég það eitt versta óráð sem hefur verið gripið til. Háir vextir eru fyrst og fremst til að draga úr þenslu í þjóðfélaginu. Nú eiga fyrirtækin örðugt með að fjármagna sig erlendis frá þannig að þau byggja á íslensku krónunni og að búa við 18% vexti þýðir í flestum tilvikum að það getur ekki verið arðsemi fyrirtækjanna að ræða. Þetta mun því leiða til atvinnuleysis og ef menn tala um, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og fleiri hafa gert, að við ættum að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi og koma í veg fyrir fólksflótta, þá erum við þarna að bregðast við með röngum hætti.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt áherslu á nokkur atriði sem við teljum geta verið til viðreisnar íslensku efnahagslífi. Við höfum m.a. bent á að það þurfi að vera lágir stýrivextir, þeir þurfi að lækka til að treysta atvinnulíf og afkomu heimilanna í landinu og við höfum talað um það að til að tryggja stöðugleika gjaldmiðilsins verði að tengja krónuna svo fljótt sem auðið er stærra myntkerfi. Við höfum bent á að það eigi að skoða hvort náið samstarf við Noreg í því sambandi komi til greina og sú leið verði könnuð til hlítar hvort Ísland og Noregur geti komið sér saman um að hafa sameiginlega mynt- og peningamálastefnu. Og hvaða annar möguleiki er til langframa nema sá, virðulegi forseti, að við þjóðir á norðurslóðum sem eigum sameiginlega hagsmuni, erum sameiginleg í EFTA og myndum raunverulega það samband í dag og höfum líka hagsmuni, komum okkur saman í þessu mikilsverða máli? En ef við getum ekki náð því hvaða aðra möguleika á þá íslenska þjóðin miðað við langtímastefnu en að leita eitthvað annað eftir samstarfi?

Það er alveg ljóst að minnsta myntkerfi í heimi verður ekki haldið uppi nema með óheyrilegum kostnaði, miðað við það sem hæstv. forsætisráðherra talaði um, hann talaði um 10% halla á ríkissjóði sem þýðir um eða yfir 130 milljarða. Hann talaði um að við mundum þurfa að yfirtaka skuldbindingar og vegna innspýtingar í banka og Seðlabanka um 1.100 milljarða. Hverjir eru vextir af slíku? Þeir eru um 60–70 milljarðar á hverju ári. Og hvernig ætlum við að standa undir þessum gríðarlegu útgjöldum? Það er eðlilegt að spurt sé. Við getum ekki haldið áfram þeirri stefnu að eyða um efni fram og við getum ekki og megum ekki halda áfram þeirri stefnu að flytja inn erlenda mynt og út vexti. Við verðum að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum, það er grundvallaratriði. Það gerum við með því að efla framleiðslufyrirtækin í landinu. Það gerum við með því að efla atvinnu í landinu. En það gerum við fyrst og fremst þegar við höfum náð því stigi að gæta að hagsmunum fjölskyldnanna, að gæta að hagsmunum fólksins sem skuldar, að það búi við sambærileg lánakjör og fólk á hinum Norðurlöndunum, að við búum ekki lengur við það vaxtaokur og verðtryggingu sem nú er að setja heimilin á slig.