136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í heimi hratt breytandi forsendna þar sem aðstæður breytast frá mínútu til mínútu gera menn óhjákvæmilega mistök vegna þess að þeir taka ákvörðun á grundvelli einhverra forsendna en hálfum degi síðar eru þær ekki lengur í gildi og ákvörðunin reynist hafa verið röng. Ég vil bara minna á að þýski seðlabankinn er nýbúinn að hlaupa undir bagga með stórum þýskum banka með 6 milljarða evra vegna þess að hann lenti í áföllum á Íslandi. Einn milljarður evra hefði dugað á sínum tíma til þess að bjarga öllum íslensku bönkunum fyrir horn. Þetta eru afdrifarík mistök sem Þjóðverjar sáu ekki fyrir. Þeir vildu ekki hjálpa okkur á sínum tíma og enginn vildi hjálpa, af því að menn sáu ekki fyrir hvað mundi gerast og hvaða afleiðingar þetta hefði í Bretlandi, Hollandi og úti um allt. Það hefði margborgað sig að aðstoða; þetta eru mistökin sem ég er að tala um. Þau eru ekki endilega viljandi og alls ekki, heldur taka menn ákveðnar ákvarðanir á grundvelli þeirra forsendna og þeirra aðstæðna sem þá eru í gildi og svo allt í einu eins og hendi sé veifað eru forsendurnar ekki lengur fyrir hendi. Þetta eru erfiðleikarnir. Þetta er það sem sjómenn þekkja og aðrir sem gera út og búa við síbreytilegar aðstæður. Þeir kannski leggja net en síðan kemur lagnaðarís og leggst yfir allt saman og þá var ákvörðunin um að leggja netin röng, svo maður tali sjómannamál.

Varðandi kvótakerfið vil ég minna á að ég er eini þingmaðurinn sem hefur flutt tillögu um að dreifa kvótanum á þjóðina. Ég man ekki eftir að neinn kvótaáhugamaður hafi flutt slíka tillögu.