136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:28]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að spyrja um hvaða mistök hefðu verið gerð síðustu fjórar, fimm vikur. Ég fékk ekki svar við því annað en einhverja söguskýringu úr fyrra stríði, hvaða mistök hefðu verið gerð í Þýskalandi. (Gripið fram í.) Já, já, en burtséð frá því hvort það var í Þýskalandi þá erum við að tala um Ísland hérna og hvaða mistök við höfum gert á Íslandi. Það kveður nefnilega allt of mikið við hjá stjórnarsinnum að þeir eru alltaf að reyna að koma þessu yfir á efnahagsástandið almennt í heiminum. Sem betur fer hafa önnur lönd ekki lent í jafnvondum hremmingum og við þó svo að efnahagsástand sé auðvitað slæmt víða í heiminum. Sums staðar er ástandið bara tiltölulega gott og það hefur væntanlega eitthvað að gera með hvernig ríkisstjórnir þeirra landa hafa höndlað þessi mál. Við sjáum að þó að einhver vandræði séu á Norðurlöndunum eru þau ekkert í líkingu við það sem við erum að fást við.

Ég spurði af því að á fundum sem hv. þingmaður hefur verið á, bæði inni í þinginu og á fundi í Iðnó fyrir nokkrum dögum, eða viku síðan, talaði hann einmitt um að hér hefðu verið gerð mistök undanfarið, síðustu fjórar, fimm vikurnar. Náttúrlega sjá allir sem hafa verið að fylgjast með þessum málum að það hefur verið algjört ráðaleysi. Seðlabankinn lækkaði stýrivexti fyrir 13 eða 14 dögum síðan, hækkaði þá svo aftur um 50% núna þegar við fórum úr 12% upp í 18%, ríkisstjórnin og ráðherrar hafa talað í kross og samstaðan virðist vera lítil í ríkisstjórninni um hvað á að gera og hvernig á að taka á hlutunum. Það var það sem ég var að fiska eftir, hv. þm. Pétur Blöndal, (Forseti hringir.) hvaða mistök varstu að tala um að hefðu verið gerð á íslenskum markaði, (Forseti hringir.) ekki þýskum?