136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:00]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir allar þær frábæru ræður sem hafa verið haldnar hér í dag, ekki hvað síst orðaskipti í andsvörum. Hér er verið að fylgja eftir umræðu um efnahagsmál og margt hefur verið sagt vegna þess. Í sjálfu sér tel ég ekki rétt að bæta miklu við en vil nota tækifærið þar sem þessi umræða er í gangi til að greina frá því hvað fjárlaganefnd þingsins hefur verið að gera undanfarna daga og vikur frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt hér fram á þinginu.

Fjárlaganefnd hefur fundað nokkuð og farið yfir einstök mál. Við höfum fengið á fundi okkar sérfræðinga bæði frá fjármálaráðuneytinu, efnahagsskrifstofunni, og síðan frá Seðlabankanum. Í gær fengum við yfirhagfræðing Seðlabankans til að koma á fund og horfa inn í hvort tveggja nútíð og framtíð með tilliti til þróunar á ríkisfjármálum, bæði tekjuhliðar og gjaldahliðar. Á sama hátt höfum við fengið sérfræðinga úr háskólasamfélaginu til að fara yfir hagstjórnaratriði og einnig yfir mál sem ég veit að hafa verið tekin upp í efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd sem lúta að ábyrgðartryggingum og umræðum um þær, þá sérstaklega tengt fjárreiðum í sjö erlendum útibúum íslenskra viðskiptabanka og hafa verið mjög til umræðu bæði hér á þingi og í íslensku samfélagi.

Strax í byrjun mánaðarins sendi fjárlaganefnd bréf til Fjársýslu ríkisins þar sem óskað var eftir því að Fjársýsla ríkisins gerði grein fyrir því hvort ríkissjóður bæri ábyrgð á innstæðum í bönkum innan lands samkvæmt lögum nr. 98/1999, um Tryggingarsjóð innstæðueigenda. Fjárlaganefnd barst strax svar sem fjárlaganefndarmenn hafa haft og hafa getað vitnað til. Í erindi Fjársýslunnar þar sem fjárlaganefnd óskar eftir því að fá tilvísun í ríkisreikning umliðinna ára er skýrt tekið fram að hvorki í umræddum lögum um innstæðutryggingar né í tilskipun EB um innlánatryggingakerfi er að finna fyrirmæli um ábyrgð ríkissjóðs á innlánum í útibúum íslenskra viðskiptabanka. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa beint upp úr bréfi Fjársýslunnar:

„Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta er að lögum sjálfseignarstofnun en ekki sjóður í eigu eða á ábyrgð ríkisins, sbr. 2. gr. nefndra laga. Af þessari ástæðu er engar upplýsingar um ábyrgð ríkissjóðs á umræddum kröfum að finna í ríkisreikningi liðinna ára.“

Forseti, það var einmitt það sem við vorum að leitast eftir, hvort umræddar kröfur hefðu átt að vera tilgreindar í ríkisreikningi liðinna ára.

Hér segir síðan, með leyfi forseta, áfram í bréfinu frá Fjársýslunni:

„Gangist ríkið á hinn bóginn lögformlega í ábyrgð ber samkvæmt d-lið 2. töluliðar b-liðar 1. mgr. 8. gr. fjárreiðulaga að gera grein fyrir þeim í A-hluta ríkisreiknings.“

Má í þessu sambandi minna á yfirlit yfir skráðar ríkisábyrgðir á bls. 72 í heildaryfirliti ríkisreiknings fyrir árið 2007 en þar er m.a. gerð grein fyrir skráðum ábyrgðum ríkissjóðs í árslok 2007. Ég vil, virðulegur forseti, að þetta komi hér fram í umræðunni þannig að það liggi skýrt fyrir af hálfu Fjársýslunnar og ég lít líka svo á af hálfu Ríkisendurskoðunar um hvernig með þessi mál eigi að fara í ríkisreikningi. Síðan hefur ríkisreikningur verið staðfestur á formlegan hátt eins og venja er.

Ég vil einnig í ljósi þess að ég sit í efnahags- og skattanefnd draga fram ákveðnar upplýsingar í umræðunni er varða samningsgerð við IMF, þ.e. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Á mánudaginn var, forseti, fékk efnahags- og skattanefnd á fund til sín þá félaga Ásmund Stefánsson, sem hefur verið ráðinn af forsætisráðuneytinu til að fara yfir ákveðin samræmingaratriði, eins og það hefur verið kynnt, og Friðrik Má Baldursson sem var kallaður til starfa í forsætisráðuneytið fyrir rúmum þremur vikum, hafði umsjón með viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og var tengiliður við hann megnið af þeim tíma. Nú vitna ég til minnisblaðs sem var lagt fram í efnahags- og skattanefnd.

Friðrik Már Baldursson segir:

„Í viðræðunum tóku fjölmargir þátt frá forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti og utanríkisráðuneyti, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti.“

Hann segir hér einnig að sínu hlutverki hafi lokið sl. föstudag þegar gengið var frá samkomulagi við sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hins vegar telji hann að mikið starf sé enn óunnið í tengslum við þessa samninga.

Virðulegur forseti. Nú les ég beint upp úr minnisblaðinu en ekki mínum eigin minnispunktum. Hér er efnahags- og skattanefndinni tjáð að forræði þeirrar vinnu sé að sjálfsögðu hjá forsætisráðuneyti en stofnanir á borð við Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið muni líka bera ríka ábyrgð á framkvæmdinni á þessari samningagerð.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Staða málsins eins og hún var sl. mánudag:

Fyrir liggur samkomulag íslenskra stjórnvalda og sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjárhagslegan stuðning sjóðsins. Samkomulagið byggir á áætlun íslenskra stjórnvalda sem miðar að því að endurheimta efnahagslegan stöðugleika og búa í haginn fyrir framtíðarhagvöxt á Íslandi. Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur lýst yfir jákvæðri afstöðu til samkomulagsins en það öðlast ekki gildi fyrr en stjórn sjóðsins hefur staðfest það“ — og hér var sagt — „væntanlega á fundi eftir rúma viku.“

Í sjálfu sér var síðan ekki upplýst neitt frekar um umrætt samkomulag. Það hefur heldur ekki verið gert í fjárlaganefnd en vissulega mun umrætt samkomulag væntanlega hafa í för með sér ákveðnar leiðarlínur inn í efnahagsþróun og hagvöxt á Íslandi á næstu mánuðum og árum. Þar af leiðandi liggur það fyrir og ég tel einsýnt að umrætt samkomulag hafi í för með sér að forsendur fjárlaga, efnahagsspáin eins og hún var birt 1. október, muni breytast. Það ætti ekki að koma neinum á óvart.

Ég verð því að segja, virðulegur forseti, að það kemur mér verulega á óvart að í dag, 30. október, skuli miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið hér á þinginu berast athugasemd frá Seðlabanka Íslands. Í umræddri athugasemd er sagt:

„Eins og kunnugt er hefur verið litið svo á að samningsgerð (Letter of Intent) á milli ríkisstjórnar Íslands og sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé enn trúnaðarmál.“

Það er nákvæmlega það sama og Friðrik Már Baldursson, sem segist hér hafa leitt umrædda vinnu, tjáði okkur en Seðlabankinn upplýsir hins vegar hér um það í framhaldinu að 19. töluliður samningsgerðarinnar sé eðli málsins samkvæmt ekki lengur trúnaðarmál sem þýðir að Seðlabankinn, sem tók þátt í þessari vinnu miðað við umrætt minnisblað Friðriks, tekur ákvörðun um að viðkomandi samningsgerð, „Letter of Intent“ sé ekki lengur trúnaðarmál. Í athugasemdinni frá Seðlabankanum segir í lokin að vegna þess að einstaka ráðherrar úr ríkisstjórn hafi undrast vaxtahækkun í 18% og hafi jafnframt sagt að ekkert ákvæði um slíka gjörð væri í samningsgerðinni vilji Seðlabankinn tilgreina að í 19. tölulið sé kveðið á um það að stýrivextir eigi að hækka.

Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Ég vil ítreka og taka undir það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði hér áðan, ég tel það ekki hlutverk Seðlabanka Íslands að tilkynna hér um (Forseti hringir.) hvað stendur í umræddu trúnaðarsamkomulagi. Það liggur fyrir að það er trúnaður á samkomulaginu og þar til bær yfirvöld eiga að tilkynna það þegar þeim þykir (Forseti hringir.) vera réttur tími til, óháð því hvort við höfum aðrar skoðanir á því.