136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:13]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta voru svo margar spurningar (JBjarn: Þær voru bara tvær.) en ég skal reyna að svara þeim á svipaðan hátt og hv. þingmaður svarar jafnan.

Það liggur ljóst fyrir hver afstaða mín er gagnvart þingræðinu og gagnvart lýðræðislegum vinnubrögðum og ég er ánægður með að sjá það í þingsal í dag, virðulegur forseti, að hér eru fjölmargir hv. þingmenn sem vilja standa vörð um þingræðið og efla þingið en hafa á sama tíma kannski verið gagnrýnir á framkvæmdarvaldið. Það er í raun og veru þverpólitísk skoðun fjölmargra. Hér eru einstaka aðilar og sérstaklega held ég að það hafi breyst í tímanna rás, jafnvel með nýjum hv. þingmönnum sem hafa komið inn, að þeir hafa allir viljað efla þingið. Það þýðir að þegar við viljum efla þingið erum við á beinan hátt að draga úr vægi framkvæmdarvaldsins, það þýðir að þingnefndir munu fá aukið vægi og ábyrgð þingmanna bæði í umræðu og ákvarðanatökum verður mun meiri.

Í þessu máli sem um er rætt held ég að vinnulagið sé ekkert ólíkt því sem hefur verið á Íslandi í áratug. Ég held að þingmenn verði að gera sér grein fyrir því og sem betur fer held ég að þeir þingmenn sem hér eru í salnum geri sér fulla grein fyrir því að tími valdastjórnmálanna er á nokkru undanhaldi hér á landi sem betur fer og tími lýðræðisstjórnmálanna að hefja sig til vegs og virðingar. Þeir þingmenn sem ekki gera sér grein fyrir því eru á villigötum. Það á ekki hvað síst við í umræðu um Evrópumál. Við fórum yfir þau, a.m.k. í mínum flokki, fyrir áratug og erum með skýrar skoðanir á því hvernig þjóðin eigi að (Forseti hringir.) fá tækifæri til þess að vinna þau með þinginu. Þar af leiðandi er hér lokasvar mitt, virðulegur forseti, að ég er sannur lýðræðissinni.