136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:41]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við sem eigum sæti í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fylgdumst með umræðum síðustu daga í gegnum vefmiðla, fjölmiðla og á þingi Norðurlandaráðs sjálfu. Þar höfðu menn á orði að loksins væri talað um alvörupólitík á Norðurlandaráðsþingi. Allir forsætisráðherrarnir komu inn á fjármálakreppuna í ræðum sínum og ekki hvað síst stöðu Íslands í þeim efnum. Þá kom auðvitað upp sagan sem við höfum heyrt bæði í fjölmiðlum og á vettvangi úti í samfélaginu að hinn alþjóðlegi fjármálageiri hafi fylgst með Íslandi eins og kanarífuglinum í námunni þegar fór að sverfa að. En þegar senda þurfti námumenn niður í kolanámur eða hvers konar námur þar sem hætta var á eiturgufum og eitruðu lofti þá sendu menn kanarífugla niður í námuna fyrst og ef kanarífuglinn kom ekki lifandi upp þá var ekki óhætt að senda mennina niður. Og það kom á daginn að Ísland var kanarífuglinn í námunni. Þannig talar fólk núna um Ísland. Það er mjög áhugavert að fylgjast með því en um leið líka dapurlegt en norrænir kollegar okkar segja við okkur fullum fetum: Af hverju eruð þið svona hissa? Hvað kom ykkur svona á óvart? Vissu ekki allir að þetta yrði svona? Við höfum fylgst með Íslandi í marga mánuði eins og kanarífuglinum í námunni. En hvað með ykkur? Voruð þið með bundið fyrir augun? Voruð þið með tappa í eyrunum? Hvar voruð þið? Svona erum við spurð.

Menn segja fullum fetum: Á Íslandi hefur þrifist samfélag búið til af skúrkum fyrir skúrka. Þetta segja norrænir kollegar okkar í ræðustóli á Norðurlandaráðsþingi. Okkur leið að sjálfsögðu ekki mjög vel undir þeim tölum sem við heyrðum sem voru á þessum nótum. En hins vegar urðum við að viðurkenna að hættumerkin voru öll til staðar og við hunsuðum þau. Þegar ég segi við, þá er ég að tala um stjórnvöld Íslendinga og íslensku þjóðina. Stjórnvöld gengu þar fram fyrir skjöldu og slógu á áhyggjur fólks. Þau gerðu það meðvitað og meira að segja þegar bankarnir voru að hrynja stóð hæstv. forsætisráðherra í dyrum Stjórnarráðsins með menn úr bönkunum á fundum hjá sér og blaðamenn spurðu hvað væri í gangi og hann brosti sínu blíðasta og sagði: Hvað er þetta, ég er bara svona að fylgjast með. Ég hef verið í útlöndum og ég er að gera svolítið „catching up“.

Þetta allt, virðulegur forseti, var auðvitað ekki boðlegt. Ríkisstjórnin kom illa fram þegar þetta var allt að gerast og það vita félagar okkar á Norðurlöndunum, það hefur fólk úti um allan heim séð í hendi sér að íslenska ríkisstjórnin stóð ekki við bakið á íslensku þjóðinni. Hún viðhafði ekki opin tjáskipti hvorki við fjölmiðla, Alþingi né íslensku þjóðina meðan á þessu stóð. Svo standa stjórnarliðar hér í ræðustóli og tala um að allt eigi að vera uppi á borðum og allt eigi að vera opið og allt eigi að vera gagnsætt.

Núna skyndilega segir hæstv. forsætisráðherra í ræðu sinni, ég tók það meira að segja niður, en hann sagði: Ríkisstjórn og Alþingi þurfa að finna leiðir til að vinna sig út úr þessu. Það er auðvitað alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra. „Ríkisstjórn og Alþingi þurfa að finna leiðir til að vinna sig út úr þessu.“ En hvers vegna hefur Alþingi ekki verið með í málunum hingað til? Hvers vegna hefur Alþingi Íslendinga verið haldið frá þessu máli? Við höfum verið að fella niður fundi, við höfum verið að fella niður nefndafundi, við höfum verið meira eða minna með hálfum hug af því að við höfum ekki fengið að komast að málinu. Hvers vegna kallaði hæstv. forsætisráðherra ekki á almannavarnaráð, hvers vegna bjó hann ekki til neyðarráð strax þegar þetta var að gerast þar sem allir stjórnmálaflokkar og allir okkar helstu sérfræðingar í efnahagsmálum voru settir niður til vinnu og síðan með beinu sambandi við ríkisstjórnir Norðurlandanna leitað lausna? Nei, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin öll, kusu að gera það eftir öðrum leiðum. Hvaða leiðir valdi ríkisstjórnin á þessari ögurstundu? Hún valdi leiðir fjármálamannanna. Hún valdi leið fjármagnsins, kapítalismans og fór inn í seðlabanka Norðurlandanna og dögum saman lét hún undir höfuð leggjast að hafa það frumkvæði að eiga viðræður á formlegum grunni við ríkisstjórnir Norðurlandanna. Norðmenn biðu dögum saman eftir því að ríkisstjórn Íslands nálgaðist Noreg formlega og hún gerði það ekki.

Svo segja menn núna og það var eitt af því sem deilt var um á Norðurlandaráðsþinginu hvort norrænu ríkisstjórnirnar hefðu sett það sem skilyrði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi að málum og það var afar athyglisverð fyrirspurn sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir lagði fyrir Jens Stoltenberg, mjög skýr og klár fyrirspurn þar sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði: Á Íslandi er talað um tvennt. Það er talað um að Norðmenn hafi viljað koma að þessum málum og viljað koma að þeim fyrr og ekki gert það að skilyrði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri við borðið og hin sagan er sú að Norðmenn hafi sett það sem skilyrði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri við borðið áður en ríkisstjórnir Norðurlandanna kæmu þar að. Jens Stoltenberg sem er klókur stjórnmálamaður, góður ræðumaður og flytur mál sitt afar skýrt, hann svaraði Siv Friðleifsdóttur ekki skýrt á þessum fundi. Hann sagði einungis: Það var auðveldara fyrir ríkisstjórnir Norðurlandanna að koma að borðinu þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var kominn þangað. Það var auðveldara, það er alveg rétt. En hin auðvelda leið er kannski alltaf sú rétta. Og það er enn þá mín bjargfasta trú að ef ríkisstjórnin hefði haft beint formlegt samband við ríkisstjórnir Norðurlandanna, auðvitað fyrst og fremst ríkisstjórn Noregs og síðan fengið fulltrúa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að borðinu þegar ríkisstjórnirnar voru búnar að ráða sínum ráðum, þá horfði málið öðruvísi við en það gerir í dag. Þá hefðum við ekki fengið tilkynningu frá Seðlabankanum um 50% stýrivaxtahækkun í gær. Hvernig stendur svo ríkisstjórnin þegar talað er um hvers vegna vextirnir voru hækkaðir um 6 prósentustig í gær? Þá svaraði einn ráðherra: Það er vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti þetta sem skilyrði. Annar sagði: Nei, nei, þetta var ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, það var bara — hvað sagði Össur Skarphéðinsson í ræðustóli fyrir tveimur dögum? — það var Seðlabankinn sem tók ákvörðunina. Þessi deila milli ráðherranna orsakar það að seðlabankastjórnin er núna komin út með fréttatilkynningu þar sem hún birtir 19. liðinn í samkomulaginu. Það þurfti því ekki að koma þessum ráðherrum sem eru búnir að vera að kasta ryki í augun á okkur síðustu daga á óvart að 18% stýrivextir væru skilyrði í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þess vegna á það heldur ekki að þurfa að koma neinum á óvart að niðurskurður í velferðarþjónustunni verður líka eitt af skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir þessu láni. Ég leyfi mér að fullyrða að það hefðu verið aðrar áherslur í samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðrar ríkisstjórnir ef íslenska ríkisstjórnin hefði ekki gert þetta allt með endalausum þumalfingrum og handarbökum í byrjun. Hún neitaði að horfast í augu við staðreyndir málsins, hún þverskallaðist við og hugsaði bara um það eitt að endurreisa hið kapítalíska kerfi sitt, fá meira af því sama eins og hæstv. forsætisráðherra sagði bara: Framleiða, framleiða, framleiða. Það var lausnin.

Hæstv. forseti. Ég er rétt búin með innganginn að ræðu minni og sé að tíminn er rétt að verða búinn. Það er af mörgu að taka þegar við skoðum þessi mál. Ég hefði haft gaman af því að fara yfir ályktun sem vinstri sósíalistarnir og græna grúppan eða flokkahópurinn í Norðurlandaráði gerði í gær þar sem við lögðum áherslu á að í þeim aðgerðum sem þyrfti að fara í nú í framhaldinu yrði að sjálfsögðu að setja hinn almenna borgara, almenna smásparanda á Íslandi í forgang. Það er lykilatriði, ekki þá sem eiga fjármagnið, stóru upphæðirnar. (Gripið fram í.) Hverjir eiga peningana í jöklabréfunum? Það er auðvitað það fólk sem verið er að vernda með 50% stýrivaxtahækkun, fólkið sem á peningana í jöklabréfunum sem hefði auðvitað aldrei átt að leyfa að fjárfest yrði í.

Það skiptir líka máli að setja í forgang smærri fyrirtæki á Íslandi. Við verðum að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og þar berum við öll ábyrgð. Við þurfum líka að tryggja það að hlutir séu opnir og gagnsæir og það sé unnið saman að málunum og það sé ekki farin sú leið sem hingað til hefur verið farin að meira að segja í utanríkismálanefnd hafa engir pappírar verið lagðir á borðið og menn hafa verið að fá allt í trúnaði eins og gjarnan er hér. (Forseti hringir.) Síðan verðum við auðvitað að endurreisa bankakerfið og fjármálageirann og vinna í því að hann fái að starfa eftir öðrum lögmálum en hingað til hefur verið því að lögmál kapítalismans verða að víkja. Þau hafa runnið sitt skeið, skulum við vona.