136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst af því sem forsætisráðherra Noregs hefur sagt að við fórum ekki öfugt að hlutunum. Við fórum alveg hárrétt að þeim. Það er ljóst að norska ríkisstjórnin telur sig ekki hafa til að bera hæfni eða aðstöðu til þess að stjórna verkefni af þessum toga. Að koma með vangaveltur og getgátur um að eitthvað annað hefði verið í boði þegar ekkert bendir til að svo hafi verið og ljóst er af afstöðu forsætisráðherra Noregs að í hans huga var ekki annar valkostur í boði að þessu leyti — það finnst mér ekki eðlilegt.

Síst af öllu finnst mér það sæmandi hv. þingmönnum Vinstri grænna að koma aftur og aftur hingað upp, eins og hv. þingmaður áðan, með vangaveltur og hálfkveðnar vísur um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni setja skilyrði um niðurskurð á velferðarkerfi þegar það er sannarlega ekki þannig. Farið hefur verið yfir helstu atriði samkomulagsins í samtölum forsætisráðherra og formanna stjórnarandstöðuflokkanna sem og í utanríkismálanefnd. Það er alveg ljóst að þar er ekki kveðið á um nokkurn niðurskurð í velferðarþjónustu.

Mér finnst satt að segja íslensk þjóð eiga annað og betra skilið á þessum óvissutímum en að hv. þingmenn Vinstri grænna ali á óvissu um grundvallarforsendur velferðarkerfis þjóðarinnar í þeim tilgangi að reyna að slá pólitískar keilur til þess að réttlæta röklausan málflutning sinn um að eitthvað annað hafi verið í boði en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Með öðrum orðum til þess að reyna að hífa hv. þm. Steingrím J. Sigfússon upp úr því norska skógarrjóðri sem hann týndist í. Menn eru komnir í endalausar ógöngur og eru að reyna að vekja upp efasemdir um þau skilyrði sem liggja fyrir í samkomulagi milli ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mér finnst það ekki réttmætt og ekki eðlileg pólitísk umræða að fiska í svo gruggugu vatni til þess að reyna að réttlæta hluti sem augljóslega voru settir fram á röngum forsendum í upphafi af hálfu forustu Vinstri grænna.