136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:22]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Margt var ágætt í ræðu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Ég get að mörgu leyti tekið undir það sem hún sagði um stöðu heimilanna í landinu og aðgerðir til að bregðast við því. Hún nefnir hugmyndir um að færa niður lán sem víða hefur verið gert. Mér finnst það góð hugmynd sem vert er að ræða betur og útfæra. Ég tel nauðsynlegt að grípa til slíkra aðgerða til að halda heimilunum gangandi og samfélaginu í heild.

Ég tek einnig undir þau orð hennar að fram þurfi að fara algjörlega óháð rannsókn á ástandinu og það af utanaðkomandi aðilum. Annað er ekki trúverðugt, ekki fyrir þá sem starfa í þessu góða húsi eða í stjórnmálum almennt og ekki fyrir viðskiptalífið eða þá sem þurfa að vinna sér traust að nýju. Ég held að allir hljóti að vera sammála því.

Þingmaðurinn kvartaði yfir því að þingmenn Vinstri grænna hefðu haft lítið fram að færa í þessari umræðu og öðrum líkum um efnahagsmálin, ekki hafi komið fram margar tillögur. Ég held samt að á undanförnum dögum, vikum, mánuðum og árum hafi ekki komið fram jafnmargar tillögur frá nokkrum stjórnmálaflokki í efnahagsmálum öðrum en Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við höfum á undanförnum vikum lagt fram fjölmargar tillögur, fjölmargar hugmyndir, bæði á þingi og utan þings, sem snúa að þeim málum sem verið er að fjalla um. Við höfum tekið afstöðu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við höfum tekið afstöðu varðandi vaxtamálin. Við höfum beint því til ríkisvaldsins að reynt verði að byggja betur undir útflutningsatvinnugreinarnar, það sem við höfum kallað stoðatvinnugreinar, þangað eigum við að beina sjónum okkar. Við höfum viljað frysta eignir auðmanna, reyna að kalla þær inn í landið aftur o.s.frv. svo að fátt eitt sé nefnt. Ekki hefur skort tillögur og hugmyndir af okkar hálfu.