136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:27]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir það leitt ef ég hef valdið hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur einhverju hugarangri með því að benda henni á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur oft og tíðum bent á aðgerðir í efnahagsmálum.

Í dag hefur verið rætt um efnahagsmál og hvers vegna staðan er sú sem hún er. Um það fjallaði m.a. ræða hæstv. forsætisráðherra og einnig ræða hæstv. utanríkisráðherra. Ég varð ekki var við að margar mótaðar tillögur kæmu fram í ræðum þeirra um það hvað gera ætti í framhaldinu. Menn fóru bara almennt yfir stöðu efnahagsmála.

Við lögðum fram frumvarp á vordögum um efnahagsmál, ítarlegt frumvarp í mörgum liðum, frumvarp um ráðstafanir í efnahagsmálum. Þegar því var fylgt úr hlaði sagði hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, með leyfi forseta:

„Þetta er í annað skipti sem hv. þingmaður“ — og átti þá við þingmann Vinstri grænna — „kemur hér upp á örfáum dögum og neitar að horfast í augu við veruleikann. Hann neitar að horfast í augu við þá staðreynd að Ísland er opið hagkerfi. Hann neitar að viðurkenna að bankarnir standi sterkir.“

Björgvin Guðni Sigurðsson kom upp í kjölfar þess hv. þingmanns sem talaði fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og sagði:

„Þið neitið að horfast í augu við staðreyndir, hér er sterkt efnahagslíf, hér eru sterkir bankar og engin hætta á ferðum.“

Við höfum margoft reynt að koma að málum í sambandi við ríkisstjórnina, allt frá fyrstu dögum hrunsins, bjóða fram aðstoð okkar, hvetja til samstöðu á þingi, stofna til þjóðstjórnar til að halda utan um það sem þarf að gera í samfélaginu til að við náum okkur á strik, (Forseti hringir.) út úr þessum ógöngum, en á það hefur ekki verið hlustað frekar en annað.