136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:29]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að heyra að þingmenn Vinstri grænna hafa margar hugmyndir í efnahagsmálum. Við hljótum þá að heyra þær hugmyndir til lausnar mjög fljótlega þegar við ræðum pakkann þegar hann kemur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eins og hæstv. forsætisráðherra gerði grein fyrir hér áðan.

Ég vil hins vegar mótmæla því, sem hv. þingmaður sagði, að umræðan af hálfu stjórnarliða hefði ekki snúist um hugmyndir heldur hefði einungis verið lýsing á ástandinu. Ég veit ekki betur en að ég hafi í ræðu minni kastað fram mörgum hugmyndum til lausnar á ástandinu. (Gripið fram í.) Ég veit ekki betur en að — þingmaðurinn kallar hér fram í og segir ráðherra, ég veit ekki betur en hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafi m.a. mælt fyrir hugmynd um sparnað í ríkisrekstri. Ótal aðrir þingmenn, bæði úr Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki, hafa viðrað hugmyndir um viðbrögð við stöðunni. Það er einfaldlega rangt, sem hv. þingmaður heldur fram, að ráðherrar og þingmenn stjórnarliðsins hafi ekki viðrað neinar hugmyndir.