136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég ætla að nota tíma minn til annars en að hlaupa eftir yfirlýsingum ráðherra, þingmanna og embættismanna á síðum dagblaða en skoða heldur ástandið eins og það blasir við þjóðinni í dag og hvernig hugsanlega sé hægt að grípa til aðgerða þannig að betur horfi þegar fram líða stundir. Fram undan er kaldur vetur á Íslandi. Eftir góðæri undanfarinna ára er skellur okkar afar mikill þegar saman fara djúp alþjóðleg kreppa og íslenskt banka- og fjármálakerfi sem var margfalt stærra en allur þjóðarbúskapurinn. Við vissum þvert á það sem menn hafa haldið fram hér að hið stóra fjármálakerfi hafði boðið upp á hættur, en að allt íslenska bankakerfið hryndi í einni svipan með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenska þjóð gat enginn séð fyrir. Þótt ljóst sé að vandinn eða náðarhöggið hafi komið utan frá getum við ekki horft fram hjá þeim vanda sem safnast hefur fyrir hér heima.

Það fjarar allt of hratt undan íslensku efnahagslífi. Við vitum að það er vandasamt að reka hagkerfi með smáum gjaldmiðli í alþjóðlegum ólgusjó. Við erum svo sem ekki eina landið sem berst við veikan gjaldmiðil nú um stundir en það hjálpar okkur ekki í þeim vanda sem hér ríkir. Það er því grundvallaratriði að koma á gjaldeyrisstöðugleika í landinu og í því verkefni er aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gríðarlega mikilvæg.

Enginn velkist í vafa um að mikill sláttur var á íslenskum athafnamönnum á liðnum árum. Það á raunar ekki aðeins við um þá. Öll þjóðin horfði með aðdáun á dugnað þessara manna og útsjónarsemi. Það átti ekki aðeins við á Íslandi. Í gjörvöllum vestrænum heimi var uppgangur svo gríðarlegur að svo virtist sem engum kæmi til hugar að þar gæti orðið breyting á. Að sama skapi er fallið mikið og vonbrigði okkar íslenskrar þjóðar, lítillar þjóðar, gríðarlega mikil. Nú eru það auðmjúkir Íslendingar sem fara bónleið til erlendra bankastofnana að leita fyrirgreiðslna.

Við töldum áður að Færeyjar væru huggulegur viðkomustaður á leið okkar til útlanda en nú hefur þessi góða vinaþjóð, sem fyrir fáum árum lenti í gríðarlegum vanda, rétt okkur hjálparhönd. Fyrir það þökkum við öll. Það sýnir svo ekki verður um villst að það er skammt á milli feigs og ófeigs. Um leið og við köllum eftir því að allt sé skoðað sem varð til þess að þessir atburðir urðu verðum við að gæta að því að við reisum land okkar upp á ný á grundvelli frumkvæðis og krafts. Þá þurfum við það lundarfar sem í frumkvöðlum býr.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að horfa til framtíðar. Það þarf að móta stefnu um hvernig við ætlum að byggja upp íslenskt samfélag að nýju. En um leið og við gerum það megum við ekki gleyma þeim fjölskyldum sem munu eiga afar erfitt næstu vikur og mánuði. Venjulegum Íslendingum mun blæða núna, eldri borgurum sem tapað hafa sparnaði sínum og þeir eru uggandi um hag sinn. Við horfum upp á gríðarlega háa vexti, verðbólgu og kjararýrnun. Við sjáum framan í ófreskjuna, atvinnuleysið, sem þegar er farið að koma sér fyrir hér á landi. Dag eftir dag berast fréttir af uppsögnum í atvinnulífinu. Það er ekki bara í bankakerfinu heldur einnig í byggingariðnaði og nú á fjölmiðlamarkaði og áfram má telja. Þessa dagana berast uppsagnarbréfin. Jólin verða án efa þung fyrir margar fjölskyldur. Höggið er að koma og það er þungt. Því lengur sem vextirnir haldast háir því erfiðara verður fyrir heimilin og öll fyrirtækin í landinu.

Við skulum setja heimilin í landinu í forgang. Því lengur sem þau eru í vanda því erfiðara verður fyrir okkur að komast upp úr þessum táradal. Svo skulum við ekki gleyma einu lykilatriði: Þegar þessi ósköp dundu yfir voru það ekki bara bankarnir sem fundu til tevatnsins. Öll fyrirtækin í landinu eru undir. Ekkert heimili gat búið sig undir þessi ósköp. Í byrjun október 2008 þegar allt gekk sinn vanagang voru býsna margir með yfirdráttinn og greiðslukortin í botni, verðtryggðar skuldir, gjaldeyrisskuldir og fleira. Það var enginn tími til að bregðast við. Það vannst enginn tími fyrir okkur til þess að gera breytingar á högum okkar. Höggið kom og fólkið situr uppi með skuldirnar.

Við þær aðstæður kom upp mikill órói og reiði í þjóðfélaginu. Það er eðlilegt að reiðin beinist að stjórnvöldum og við því þurfum við að bregðast. Við verðum að svara kalli þjóðarinnar um skynsamlegar aðgerðir til að bregðast við vandanum. Það er raunveruleikinn sem við þurfum að horfast í augu við. Grunnurinn er sterkur en til þess að hann verði það áfram má ekki pota í hann um of. Þar skiptir í mínum huga nýsköpun meginmáli. Við megum ekki hverfa af þeirri braut að halda uppi einu besta menntakerfi í heimi. Við munum byggja framtíð þjóðarinnar á grunni hugvits, frumkvæðis og þróunar. Margt af því fólki sem missir nú vinnuna er vel menntað. Það verður að finna þeim krafti farveg. Við höfum ekki efni á því að missa það fólk út úr landinu. Við eigum ekki að horfa til baka eða halda því fram að við séum að hverfa aftur í tímann.

En hvað ætlum við að gera núna? Hvaða verkefni blasa við okkur? Við skulum varast að leggja óþarfabyrðar á þjóðina. Aukin skattheimta gæti hreinlega haft ófyrirséðar afleiðingar á þungan heimilisrekstur. Það þarf að skera alla þá fitu sem við höfum safnað utan á okkur. Í góðærinu höfum við leyft okkur svo margt sem við höfum ekki leyfi til að gera lengur. Við skulum bara byrja hérna í þingsalnum. Við skulum leggja af stöðu aðstoðarmanna þingmanna. Við skulum fækka ráðgjöfum ráðherra. Við skulum athuga hvort hægt sé að endurskipuleggja stjórnræðið t.d. með því að sameina ráðuneyti. Við skulum athuga launakerfi ríkisins. Við skulum endurskipuleggja utanríkisþjónustuna. Við skulum reyna að draga eins og kostur er úr óþarfaferðalögum á vegum ríkisins. Við skulum hraða endurskoðun á svokölluðum eftirlaunalögum. Ef við ætlum að leggja á þjóðina að borga svo miklar skuldir sem raun ber vitni eigum við að byrja á okkur sjálfum og spara þar.

Eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á áðan er það við aðstæður sem þessar sem tal um pólitík skiptir máli. Það er núna sem við þurfum að velja hvað við ætlum að gera og þá skipta pólitískar skoðanir verulegu máli. Þegar við lítum upp skiptir meginmáli að undirstöður lýðræðisins séu traustar. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna löggjafarsamkunduna, þennan sal. Við verðum að efla eftirlit þingsins og tryggja að rödd þess sé há og snjöll.

Nú stöndum við í stríði við erlent stórveldi. Fyrir því munum við Íslendingar aldrei gefast upp. Við gerðum það ekki fyrr á tímum og við munum ekki gera það núna. Í gegnum alla okkar sögu hefur það skipt meginmáli að hafa í landinu fólk sem hefur mikla framsýni, stefnufestu og kjark til að koma þjóðinni upp úr þeim vanda sem að steðjar. Nú reynir á. Við verðum að bretta upp ermarnar öll sem eitt. Við skulum setja þjóðina í forgang því að við byggjum upp öflugt og kraftmikið samfélag á okkur sjálfum.