136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Erindi mitt er fyrst og fremst að hrósa hv. þingmanni fyrir góða ræðu og sérstaklega að taka undir með henni um mikilvægi þess að við þingmenn göngum á undan með góðu fordæmi í aðhaldi í ríkisrekstri. Hið sama eigi við um ríkisstjórn. Við þær aðstæður sem nú hafa skapast í samfélaginu fá allir áhuga á stjórnmálum og allir hafa skoðun á því réttilega hvernig við forgangsröðum í ríkisrekstri og förum með opinbera fjármuni.

Ég held að enginn vafi sé á því að eftir 12 ára linnulausa aukningu ríkisútgjalda hljóta að vera miklar matarholur í hinu opinbera kerfi. Það er hins vegar mikilvægt að við mörkum strax í upphafi þá stefnu að skera niður þar sem mest ástæða er til og að við reynum í lengstu lög að verja þá þætti sem skipta máli fyrir grundvallarvelferð borgaranna, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og löggæsluna. Þessir þættir verði grunnstoðirnar en við byrjum á að skera niður óþarfakostnað.

Hv. þingmaður nefndi eftirlaunalögin og sérréttindi ráðherra og æðstu embættismanna í því samhengi. Ég tek sérstaklega undir með henni hvað þau varðar. Það er ófært að ætla almenningi í landinu að þola verulega lækkun eigin lífeyris um næstu áramót eins og nú blasir við en á sama tíma að halda óbreyttu forréttindafyrirkomulagi hjá æðstu embættismönnum ríkisins. Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann hvernig hún sér fyrir sér að við getum gengið í þetta verk fljótlega og hvort hún er sammála mér um að við ættum einfaldlega að afnema þessi réttindi og leyfa þeim sem eru slíkar smásálir að vilja sækja sér laun með dómi að gera svo.