136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrir liggur sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leita eftir fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í formi gjaldeyrisláns til að koma gjaldeyrisviðskiptum við umheiminn í eðlilegt horf. Ísland er í dag eyríki í meira en landfræðilegum skilningi, öll okkar tengsl við umheiminn í formi eðlilegra gjaldeyrisviðskipta hafa rofnað og í reynd er ekki eðlileg verðmyndun á gjaldeyri. Rétt áðan kallaði Seðlabanki Íslands eftir því að viðskiptaaðilar komi með gjaldeyri sem mögulegt er inn á þann vísi að gjaldeyrismarkaði sem nú er rekinn í skjóli Seðlabankans í því skyni að treysta verðmyndun með gjaldeyri. Með öðrum orðum þýðir þetta að seljendur vöru og þjónustu í útlöndum hafa eðlilega vantreyst möguleikum sínum á að koma með gjaldeyri hingað vegna þess að þeir hafa ekki getað reitt sig á að fá yfirfærslu aftur og að geta notað gjaldeyrinn á síðari stigum í útlöndum.

Hrun bankanna leiddi líka til hruns viðskiptasambanda við erlendar bankastofnanir sem áður höfðu tryggt gjaldeyrisviðskipti og auðvitað fer ekki hjá því heldur að orðsporstjón okkar í Bretlandi vegna aðgerða breskra stjórnvalda hefur haft áhrif í þessa veru. En á meðan þetta ástand varir er íslenska krónan lágt skráð og við söfnum glóðum elds að höfði okkar því að í reynd er Seðlabanki Íslands að ganga á gjaldeyrisvaraforða dag frá degi og ekki er eðlileg verðmyndun með gjaldeyri. Fyrir lítið land sem er mjög háð milliríkjaviðskiptum eins og Ísland er þá er enginn valkostur við það að hafa eðlilegt gjaldeyrisflæði og eðlilegan gjaldeyrismarkað. Það er óhugsandi fyrir okkur að fara aftur til þess tíma þegar hlutirnir voru nokkurn veginn eins og þeir eru í dag, þ.e. þegar hið opinbera skammtaði gjaldeyri og meira að segja á mismunandi gengi eftir því hvaða atvinnugrein átti í hlut vegna þess að sumar atvinnugreinar voru meira í náðinni hjá stjórnvöldum en aðrar. Það er einfaldlega þannig að það er enginn valkostur í nútímasamfélagi við það að byggja upp öflugan gjaldeyrismarkað sem geti lagt grunn fyrir velferð heimila og fyrirtækja. Því fyrr sem við fáum eðlilegt verð á krónuna þeim mun betra og þeim mun hagstæðara fyrir íslenskan almenning og fyrirtæki.

Það hefur nokkuð verið gert úr því að sú stýrivaxtahækkun sem nú er orðin verði skaðleg heimilum og fyrirtækjum. Í því felst mikil einföldun af því að valkostirnir í stöðunni eru engir, þeir eru einfaldlega engir. Og það er algerlega ljóst að ef við ekki grípum til allra þeirra aðgerða sem við getum til að koma á gjaldeyrismarkaði sem allra fyrst í gang þá gerum við tvennt: Í fyrsta lagi eyðileggjum við stöðu fyrirtækja sem skulda 80% af skuldum sínum í erlendum gjaldeyri og eru því nú öll nokkurn veginn í raun gjaldþrota vegna þess að krónan er svo lágt skráð. Í öðru lagi hættum við á að viðhalda hér verðbólgu, langvinnri verðbólgu fram á næsta ár sem mundi éta upp eign almennings í íbúðarhúsnæði og auka á verðtryggðar skuldir heimilanna. Því má ekki gleyma að heimilin í landinu skulda einungis um 10% af skuldum sínum á vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með stýrivöxtum, 90% eru annars vegar verðtryggðir vextir sem ekki ráðast af stýrivöxtum og svo erlendar skuldir. Heimilin í landinu eiga því allt undir því að við komum gjaldeyrismarkaðnum í eðlilegt horf sem allra allra fyrst og það eiga fyrirtækin líka. Þetta er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir og undan því verður ekki vikist. En þetta verður ekki auðvelt, þetta verður alls ekki auðvelt og það er veruleg óvissa um hversu vel tekst til.

Við skulum ekki gleyma því að íslenska krónan hefur aldrei flotið á markaði nema síðustu sjö ár. Þegar ákveðið var að láta krónuna fljóta á markaði og opna hindrunarlaus viðskipti með gjaldmiðilinn var lögð mikil áhersla á að byggja trúverðuga peningamálastefnu að bestu manna yfirsýn með verðbólgumarkmiði og mikið var lagt upp úr að gera hana vel úr garði og treysta sjálfstæði Seðlabankans sem átti að auka tiltrú á krónuna á markaði. Þetta hefur verið nauðsynleg forsenda gjaldeyrisviðskipta í öðrum opnum hagkerfum.

Núna blasir við okkur það tröllaukna verkefni eftir að íslenska krónan hrundi og eftir að traustið á íslensku efnahagslífi hrundi að skapa traust á gjaldeyrismarkaði á ný án þess að ljóst sé eftir hvaða leiðarstjörnum verði stýrt vegna þess að verðbólgumarkmið Seðlabankans hefur verið aftengt og við þær aðstæður þegar orðspor landsins hefur beðið mikinn hnekki og þar af leiðandi ólíklegt að margir erlendir aðilar vilji halda á krónum um þessar mundir. Og í þriðja lagi þegar orðspor Seðlabankans hefur fallið nokkurn veginn dag frá degi og sérstaklega nú upp á síðkastið og verður ekki betur séð af yfirlýsingu dagsins í dag en þar séu menn uppteknari við að standa í stríði við hæstv. menntamálaráðherra en að sinna efnahagsstjórninni í landinu. Þetta eru auðvitað hrikalega erfiðar aðstæður til að setja gjaldmiðil á flot, sérstaklega ef haft er í huga að um er að ræða minnsta fljótandi gjaldmiðil í heiminum. Ég held að sé óhætt sé að fullyrða að aldrei nokkurn tíma hafi gjaldmiðill verið látinn fljóta á gjaldeyrismarkaði við erfðari aðstæður en þessar. Við skulum því búa okkur undir að þetta verði erfið sigling. Vonandi verða það tímabundnar aðstæður en þetta getur vel orðið erfið sigling og það getur orðið erfitt að byggja upp tiltrúna aftur. Ég er bjargfastlega þeirrar skoðunar að það sem best geti orðið til að auka traustið á íslenskri krónu, auka viðskipti með hana og auka stöðugleika hennar jafnt til skamms tíma sem lengri tíma sé yfirlýsing um aðildarumsókn að Evrópusambandinu vegna þess að þá verður íslenska krónan verðmæt í augum þeirra á markaði sem vilja veðja á aðild að Evrópusambandinu og því að þessi gjaldmiðill breytist í evru. Með öðrum orðum, kaupendahópurinn stækkar. Ég held satt að segja að yfirlýsing um Evrópusambandsaðild og ákvörðun um að taka upp evru yrði besta akkerið sem við gætum mögulega sett í krónuna við þessar aðstæður til að reyna að tryggja stöðugleikann á ný. Því það er sannarlega dapurlegt ef okkar eina leið í þessum erfiðu aðstæðum er að halda áfram með markaðsviðskipti með krónuna sem hingað til hefur verið gríðarlega óstöðug og sá óstöðugleiki hefur valdið heimilum og fyrirtækjum miklu tjóni og það er alvarlegt þegar við sjáum svo fram á að allar horfur eru á að óstöðugleikinn verði enn meiri á næstunni.

Virðulegi forseti. Þetta eru erfiðir tímar og verða erfiðir tímar, við eigum margar erfiðar brekkur fram undan. Það skiptir öllu máli að við nálgumst verkefnin af einurð og undan því verkefni sem við stöndum frammi fyrir verður ekki vikist. Sama hvaða skoðanir menn hafa á langtímafyrirkomulagi gjaldmiðilsmála og hvaða skoðanir menn hafa á stjórn efnahagsmála að öðru leyti, þá er það forgangsatriði í svona opnu hagkerfi, sérstaklega þar sem almenningur skuldar svo mikið sem raun ber vitni í verðtryggðum skuldum hér á landi, að fá sem fyrst verð á krónuna, styrkja gengi hennar þannig að við drögum úr verðbólguhættu því að ef við viðhöldum núverandi ástandi, óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði með hættu á vöruskorti, bjóðum við heim hættunni á óðaverðbólgu á næstu mánuðum og þá er ekki að spyrja að leikslokum. Íslenskt efnahagslíf er sérstakt hvað varðar hið háa hlutfall verðtryggðra skulda en það leggur líka gríðarlegar byrðar á herðar okkar að taka réttar ákvarðanir núna og beita öllum tiltækum meðulum, þar með talið stýrivaxtahækkun, til að reyna að tryggja að verðbólguskotið verði eins lítið og eins stutt og mögulegt er.