136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég furða mig æ meira á því hvernig stendur á því að hv. þm. Árni Páll Árnason er í flokki sem kennir sig við jafnaðarmennsku. Vegna þess að hér kemur hann með málflutning sem maður hefði getað trúað að kæmi úr munni þeirra sem aðhyllast helst hagfræðikenningar Miltons Friedmans og Friðriks Hayeks. Hér talar hann fyrst og fremst fyrir harðri stýrðri peningamálastefnu sem einkennir hagfræðikenningar þessa skóla.

Og þegar hann segir að við eigum engra kosta völ nema að taka þessari stýrivaxtahækkun þá er ég honum ósammála. Að vísu segir hann að við þurfum að skapa traust á gjaldeyrismarkaði og styrkja krónuna og draga úr verðbólgu. Um þetta markmið erum við sammála. En sú leið sem hér er farin, að hækka stýrivextina við þær aðstæður sem við búum við í efnahagslífinu að öðru leyti, er mjög varhugaverð að mínum dómi vegna þess að hún getur allt eins haft þveröfug áhrif eins og hún hefur haft annars staðar í heiminum þar sem hún hefur verið farin við svipaðar erfiðar efnahagsaðstæður. Hún getur allt eins leitt til þess að við horfum hér upp á hrinu uppsagna og gjaldþrota heimila og fyrirtækja og þá er verra af stað farið en heima setið hvað þetta snertir.

Ég held að leiðin til þess að draga úr verðbólgu, sem er vissulega mjög mikilvægt markmið, sé ekki sú við þessar aðstæður þegar við erum í raun og veru við frostmark í efnahagskerfinu að öðru leyti, að hækka vextina eins og Seðlabankinn ákvað að gera samkvæmt einhverju samkomulagi sem gert hefur verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég held þvert á móti að það hefði verið nær að fara með vextina niður ef eitthvað er. Ég er sannfærður um að það hefði ekki haft verri áhrif á gjaldeyrismarkaðinn en sú leið sem hér varð ofan á.

Um þetta erum við bersýnilega ósammála en því miður heyrist mér hv. þm. Árni Páll Árnason aðhyllast harða peningamálastefnu í anda Miltons Friedmans og Hayeks.