136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hafði á orði að það hefði verið mikill gæðamunur á ræðum hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Hann fór nokkuð lofsamlegum orðum um þá innihaldsríku framtíðarsýn sem hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefði haft í ræðu sinni og lét það fylgja að hann hefði ekki séð að í þeirri framtíðarsýn hefði verið neitt pláss fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Kannski gat hv. þingmaður tímans vegna ekki útskýrt ummæli sín neitt nánar og því inni ég hann eftir því hvaða efnisatriði þetta voru í framtíðarsýn hæstv. utanríkisráðherra sem þingmanninum þóttu svo efnismikil og vönduð og í hverju það var sem hann sá þar ekki samleið með Sjálfstæðisflokknum. Ætli hann hafi í þeim efnum séð samleið með einhverjum öðrum? (Gripið fram í.) Mér hlýtur að leika nokkur forvitni á því fyrst hv. þingmaður tók málið upp.