136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að stjórnarflokkarnir eru ólíkir flokkar og að vinstri flokkarnir hafa átt ýmis sameiginleg áhersluatriði, einkum varðandi tekjuskiptingu og aðra slíka þætti. Ég hygg hins vegar að pólitískar áherslur í því verði á komandi missirum miklu líkari en þær hafa verið því að hvar svo sem í flokki menn standa, hægra megin eða vinstra megin, er óhjákvæmilegt að jafna tekjuskiptinguna í landinu verulega í kjölfar þeirra áfalla sem nú hafa dunið yfir. Við sjáum viðbrögð við kreppum af þessu tagi, hvar sem þær hafa orðið í heiminum, að fyrst og fremst er reynt að jafna byrðarnar, tekjuskiptinguna, að endurnýja samfélagssáttmálann og setja í forgang hina efnaminni, setja fjölskyldurnar í forgang, að bjarga heimilunum og bjarga vinnunni en ekki að hlaða undir auðmennina, eignasöfnunina eða forréttindastéttirnar í samfélaginu. Ég held að um það muni stjórnarflokkarnir eiga gott samstarf á næstu missirum og vonandi við alla flokka sem hér starfa.

Af þessu tilefni og vegna orða hv. þingmanns um að ræða verði hina veiku íslensku krónu vil ég inna hann aðeins nánar eftir því til hvers hann vísar í því efni. Þeim sem er umhugað um kjör íslenskrar alþýðu hlýtur að vera mikið umhugsunarefni sú króna sem fært hefur íslenskri alþýðu óðaverðbólgu, okurvexti og einhver óstöðugustu lífskjör sem við finnum í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.