136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum efnahagsmál og aðkomu gjaldeyrissjóðsins að efnahagslífi íslenska ríkisins. Það hefur auðvitað komið fram í ræðum hér á undanförnum dögum að það eru örlagaríkir tímar þessar vikurnar og fram undan og raunar ótrúlegt að vera kominn í þetta viðfangsefni rétt nýsestur á þing og að horfa á það hrun sem hefur átt sér stað í fjármálalífi okkar.

Ég verð að viðurkenna eftir að hafa hlustað á ræðurnar í allan dag og fyrst áætlun ríkisstjórnarinnar og samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn liggur ekki fyrir að ég átti kannski von á að heyra meira af óskum stjórnarandstöðunnar og kröfur til þeirrar áætlunar, því að hafi ég skilið þetta rétt hlýtur samkomulagið að koma til afgreiðslu á þinginu og með þeim fyrirvara að hér verði hugsanlega gerðar einhverjar breytingar á því. Við eigum líka von á því að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komi með einhverjar tillögur eða óskir í umfjöllun sinni um málið. Ég er sem sagt að lýsa eftir að gaman hefði verið að heyra meira af tillögum og óskum um með hvaða hætti þetta hefði átt að vera. Það eina sem komið hefur fram í sjálfu sér er að Vinstri grænir virðast hafa mikinn ímugust á sjóðnum og telja ónauðsynlegt að leita til hans, hefðu viljað fara aðrar leiðir og hafa þar með kannski sett sig út úr umræðunni um þær kröfur sem eðlilegt var að gera til sjóðsins.

Í umræðunni í samfélaginu undanfarið hefur komið fram að almenningur spyr hvernig þetta hafi getað gerst og hver beri ábyrgðina. Það er eðlilegt að menn spyrji og eðlilegt að menn velti því fyrir sér hver beri sökina á því sem gerst hefur og öll hljótum við að líta til baka og reyna að leita svara en ég skal viðurkenna hreinskilnislega að ég get ekki svarað þeim spurningum í dag.

Ég hef velt því fyrir mér hverjir beri ábyrgð á því lagaumhverfi sem samþykkt var þegar einkavæðing bankanna átti sér stað. Ég hef oftast kallað það gjöf eða skiptingu bankanna á milli tveggja stjórnmálaafla árið 2002. Þá talaði ég fyrir því að öðrum ríkisbankanum yrði haldið eftir og Samfylkingin hafði raunar þá skoðun á þeim tíma og sat hjá við afgreiðslu á því frumvarpi vegna þess að hún vildi sjá að ríkið væri áfram inni á markaðnum.

Ég velti því líka fyrir mér hvort ég beri ábyrgð á þeim röngu ákvörðunum sem teknar voru á þenslutímanum þegar uppbyggingin var öll fyrir austan og fyrirsjáanlegt að hér yrði mikið um að vera. Þá var gripið til stýrivaxtahækkana sem leiddu m.a. til þess að erlent fé streymdi inn til landsins og svokölluð jöklabréf komu til. Á sama tíma var bindiskyldan lækkuð, skattar voru lækkaðir á fyrirtæki, húsnæðislánin voru aukin og allt gerist þetta á sama tíma og þensla var mjög fyrirsjáanleg. Ég veit ekki hvort ég ber ábyrgð á þessu, eflaust geri ég það að einhverju leyti en ég veit þó að ég ber ábyrgð á minni eigin skuldsetningu þar sem ég stórjók lán til húsnæðiskaupa og tók bílalán í erlendri mynt. Ég get líka borið ábyrgð á því að hafa sofið á verðinum og ekki séð fyrir að á síðastliðnu hálfa ári gætu bankarnir hrunið, að hafa ekki gert tillögur um að brjótast út úr regluveldi alþjóðasamfélagsins þar sem tryggingin fyrir innlánsreikningum bæði hér og erlendis átti að vera tryggingarsjóður sem greiddi ákveðið framlag og ekkert annað. Sjóður sem dugir skammt með sína 18–19 milljarða til að tryggja öll innlán innan lands hvað þá upp í þau hundruð milljarða sem voru erlendis.

Auðvitað hefði ríkisstjórnin getað sagt: Þetta voru einkabankar, þetta voru einkafyrirtæki sem bera ábyrgð á þessu og engin ástæða til annars en að greiða bara úr tryggingarsjóði í hlutfall við það sem hann ber ábyrgð á. En ég er hræddur um að það hefði verið enn þá erfiðara að fara í gegnum þessa tíma ef svo hefði verið gert.

Ég gerði mér ekki heldur grein fyrir því að peningarnir mínir í líftryggingum eða í séreignarsparnaði væru ekki tryggir. Ekki vegna þess að skilmálarnir eru alveg klárir á þeim bréfum sem ég hef í höndunum en oftrú mín á efnahagslífi á þeim tíma og á þeim fyrirtækjum sem tóku að sér að ávaxta peningana mína hefur orðið til þess að ég sást ekki fyrir. Ég hefði getað gert mér grein fyrir að það stefndi í óefni. Við vissum að það var lánsfjárkreppa, við gátum séð að bankarnir voru í vandræðum með að fjármagna sig. Við vissum að þeir voru að fara að auka innlán sem þá þótti fín aðferð til að skapa sér fjármagn. Allt þetta hefði maður kannski átt að sjá.

Það eina sem við getum gert til að svara þessum spurningum er auðvitað að fara þá leið sem hér hefur verið boðuð, að gerð verði úttekt á þessu öllu saman, peningamálastefnunni og því sem dró okkur á þennan stað. Að það verði gert af fullum heilindum með aðilum bæði innan lands og erlendis sem enginn ágreiningur er um og það verði gert á ábyrgð þingsins. Á sama tíma er þegar komin af stað vinna til að gæta að því hvort einhverjir hafi misnotað sér þetta ástand og skarað eld að sinni köku með ólöglegum hætti.

Og það eina sem ég get gert í stöðunni í dag er að halda áfram að vinna að þeim markmiðum sem ég hafði með því að bjóða mig fram til Alþingis, þ.e. að vinna að velferðarmálum og menntamálum og reyna að gæta hagsmuna landsbyggðar í þeim átökum sem nú eru fram undan. Baráttan stóð um það þegar þenslan var hvað mest og ákveðin svæði urðu út undan og það má auðvitað ekki bitna á þeim svæðum nú þegar hugsanlega verður að grípa til niðurskurðar að þau verði enn og aftur látin gjalda.

Ég hef lagt mitt af mörkum í starfshópi um björgunaraðgerðir til að reyna að vernda einstaklingana og heimilin í þessum slag öllum saman. Þetta er hópur sem hefur starfað með félagsmálaráðuneytinu og ég sem formaður félags- og tryggingamálanefndar hef komið þar að. Ég get sagt frá því að félags- og tryggingamálanefnd boðaði á sinn fund alla þá aðila eða stofnanir sem heyra undir félags- og tryggingamálaráðuneytið ásamt fulltrúum frá Samtökum atvinnulífsins og ASÍ. Á þeim fundi kom fram að gríðarlega mikil og góð vinna hefur verið í gangi hjá öllum þessum aðilum, hjá ráðuneytinu sjálfu, hjá Vinnumálastofnun, Barnaverndarstofu, Ráðgjafarstofu heimilanna og Íbúðalánasjóði til að undirbúa sig og bregðast við því ástandi sem nú er komið upp.

Sett hefur verið upp öflugt upplýsinganet, heimasíða, hjá ráðuneytinu og þangað kemur mikið af heimsóknum. Inn á þessa síðu tengjast síðan verkalýðsfélög og ýmis sveitarfélög og aðrir sem eru að vinna að málum á öðrum stöðum. Haldnir eru reglulegir fundir stofnana og ráðuneyta bæði með Íbúðalánasjóði og innbyrðis. Samtök atvinnulífsins eru við borðið og fleiri og fleiri aðilar.

Þegar hafa komið fram ýmsar tillögur og sumt er komið í framkvæmd. Þær reglur sem hafa gilt um greiðsluerfiðleikalán hjá Íbúðalánasjóði hafa verið látnar gilda um íbúðalán hjá bönkunum. Gefnar voru út heimildir til að frysta gengistryggð íbúðalán. Verið er að ljúka drögum að lögum um greiðsluaðlögun. Unnið er með stimpilgjöld og kostnað af lántöku og þannig mætti lengi telja. Það er verið að glíma við að reyna að lágmarka innheimtukostnað, aflétta gjöldum. En það er auðvitað eins og annað þegar maður stendur í ræðustól Alþingis og kemur með svona upptalningu þá skapast ákveðnar væntingar og það er auðvelt að koma svo síðar og segja að menn hafi ekki staðið við slík fyrirheit og þess vegna ætti maður kannski ekki að segja neitt. En ég held að menn verði að taka þátt í þessu, allir sem mögulega geta. Koma með góðar hugmyndir, leita góðra lausna og koma þeim á framfæri hvort sem er við ráðuneyti eða okkur sem vinnum að þessu eða inn í félags- og tryggingamálanefnd þar sem allir flokkar eiga aðild og reyna þannig að gera allt sem við getum til að verja heimilin og einstaklingana frá því að lenda í gjaldþroti, frá því að lenda í fjötrum skuldsetninga umfram það sem óhjákvæmilegt er nú þegar.

Ýmislegt er hægt að gera en það er vandmeðfarið vegna þess að margt af því sem gert er getur orkað tvímælis, einkum varðandi hugsanlegar lögsóknir vegna jafnræðisreglna og vegna þess að menn mismuni á einhvern hátt eigendum hvort sem er lána eða inneigna. Þetta hefur þegar verið boðað og þess vegna verða menn að vanda sig í sambandi við þetta.

Hér hefur ýmislegt verið nefnt. Búið er að efla Ráðgjafarstofu heimilanna. Rætt hefur verið um hvort heimila eigi að nýta séreignarsparnaðinn til að bjarga mönnum út úr þessu. Komið hafa fram hugmyndir um hvort setja eigi sérstök lög um dráttarvexti þannig að stýrivaxtahækkunin sem nú er komin verði mildari en ella og svona mætti lengi telja. Þetta gildir raunar eins og ég sagði um allar innheimtuaðgerðir hvort sem er hjá einstaklingum eða fyrirtækjum að menn þurfa að fara eins varlega og hægt er.

Sjálfur hef ég haft áhyggjur af börnum og unglingum í þessari umræðu allri og bið menn um að gæta orða sinna í sambandi við lýsingar á ástandinu eða upphrópanir, hvort sem er gegn ráðamönnum eða öðrum þrátt fyrir reiði. Menn verða að reyna að hindra það að skaðinn verði meiri með því að tala ekki þannig að börn haldi að hér sé allt að fara á alversta veg.

Það verður verkefni okkar að byggja nýtt samfélag, ný tækifæri og ný viðmið í samfélaginu og við eigum að nýta okkur (Forseti hringir.) það vandamál sem við stöndum frammi fyrir til þess að byggja upp í framhaldinu.