136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:04]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Margur heldur mig sig. Það er ekkert fjær mér en að refsa hv. þingmanni fyrir eitt eða annað. Það er hins vegar alger grundvallarmisskilningur hjá hv. þingmanninum að þetta komi málinu ekki við. Málið er nefnilega það að það er afskaplega mikil tortryggni og reiði úti í samfélaginu. Hún beinist eðlilega að ríkisstjórninni, að ráðamönnum, eins og ég rakti í máli mínu í dag, líka að auðmönnunum, að bönkunum, að Fjármálaeftirlitinu, að Seðlabankanum og einnig að fjölmiðlum. Við vitum alveg hvernig eignarhaldi á fjölmiðlum í þessu landi er háttað og hvernig valið hefur verið inn á ríkisreknu fjölmiðlana.

Þess vegna kemur það málum við, hæstv. forseti, þegar fregnir berast af leynifundum sem sumir fjölmiðlar hafa verið boðaðir til og aðrir ekki. Nú hefur hv. þingmaður upplýst hvert tilefni þessa fundar var, sem sagt kynning á aðgerðaáætlun til þess að endurheimta orðspor Íslands. Ég ætla rétt að vona að sú aðgerðaáætlun skili einhverjum árangri því að ekki veitir af að reyna að endurheimta orðsporið.

Það er miður að í rauninni skuli þurfi eitt hneyksli á dag að reka á fjörur fjölmiðla. Ég er hér að vísa til fregna sem verið hafa í blöðum undanfarna daga, annars vegar um kaup bankastjóra á 200 millj. kr. hlut í Glitni og hins vegar sölu ráðuneytisstjóra á einhverjum ótilgreindum hlut í Landsbankanum. Staðfestar fregnir eins og um þennan leynifund ala auðvitað á tortryggni manna meðan ríkisstjórnin þorir ekki að koma beint fram með það sem (Forseti hringir.) kallað er eftir sem eru skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sú þögn elur á tortryggni sem þýðir að við spyrjum um allt.