136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég reyndi nú eftir fremsta megni í ræðu minni áðan að vera tiltölulega hupplegur við Samfylkinguna en það er bersýnilegt hverju maður á von á ef það er reynt og er ekki meira um það að segja.

Hv. þm. Róbert Marshall sagði hér að það væri engu líkara en að Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri á móti sjúkdómum. Það er ekki svo, hv. þingmaður, en að sjálfsögðu verður að greina sjúkdóminn sjálfan (Gripið fram í.) og þá er óhjákvæmilegt (Gripið fram í.) að skoða neyslumunstrið vegna þess að í raun er um ákveðinn lífsstílssjúkdóm að ræða sem við Íslendingar líðum nú fyrir. Þá verður að greina hvernig við höfum farið með þjóðarlíkamann á undanförnum árum. Ég dró það sérstaklega fram í ræðu minni að við hefðum farið eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu og tekið opinberar, samfélagslegar eigur og einkavætt, einkavinavætt. Það hefur verið ákveðin græðgisvæðing í samfélaginu, dramb og misskipting. Það er sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðið upp á, neyslan sem hann hefur boðið þjóðarlíkamanum upp á og þess vegna segi ég að um er að ræða ákveðinn lífsstílssjúkdóm.

Til þess að takast á við þann vanda sem við er að etja verða menn að vita í hverju sjúkdómurinn felst og það er það sem við höfum verið að reyna að gera. Ég tel að það sé ákveðin nauðhyggja sem felst í því að segja að við eigum engra annarra kosta völ en þessara. Það eru ýmsar lækningaaðferðir til. Læknirinn sem var í sambandi við hv. þingmann hefði átt að geta upplýst hann um að alls konar lyf væru í boði, að til væru „alternatífar“ aðferðir til þess að takast á við ýmsa sjúkdóma o.s.frv. (Forseti hringir.) Það er það sem við höfum bent á í þessari umræðu og ég hefði talið að Samfylkingin ætti að taka því fagnandi að við höfum ýmislegt til málanna að leggja í þessu sambandi.