136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega eins og ég vék að að Danir höfnuðu upptöku evrunnar, ólíkt því sem Finnar gerðu. Ég kom heim í gærkvöldi af Norðurlandsráðsþinginu þar sem við fengum að heyra umræður forsætisráðherra Norðurlandanna um fjármálakrísuna, ræðu Stoltenbergs, m.a. um það sem sneri að Íslandi og sömuleiðis umræður Anders Foghs Rasmussens um það hversu mikilvægt hefði verið fyrir Dani að hafa evruna núna. En í Finnlandi þar sem evran var tekin upp þá hafa Finnar auðvitað bakstuðning Evrópska seðlabankans. Ef menn ætla að hafa þann bakstuðning að fullu þá þurfa þeir náttúrlega að vera fullir aðilar að myntbandalaginu.

Ég held hins vegar að ég muni það rétt þótt það sé alltaf varasamt að fara með svoleiðis „på stående fod“ eins og Danirnir mundu segja, að Evrópski seðlabankinn sé að vissu leyti bakhjarl að þessari tengingu dönsku krónunnar við evruna og hljóti að minnsta kosti tiltölulega snemma í ferlinu að koma á stuðningi við Dani þó að það kunni að vera að Norðurlöndin geri það fyrst.