136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur margt komið fram í dag en ekki endilega allt um efnisatriði málsins sem er efnahagsástandið og samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Margir þingmenn hafa eytt helsta púðri sínu í að kalla eftir tillögum þingflokks vinstri grænna, tillögum til úrlausnar, og virðast hafa gleymt því að við erum margoft búin að bjóða fram hjálp okkar í þeim vanda sem nú steðjar að en hún hefur ekki verið þegin. Þannig að ég ætla svo sem ekki að eyða miklu púðri í þann málflutning.

Mig langar hins vegar að ræða dálítið um form og það hvernig við tökumst á við þennan vanda, við sem sitjum hér á þessu þingi. Stjórnarandstöðuþingmenn og jafnvel sumir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa kvartað undan því að þingið hafi ekki verið haft nægilega með í ráðum. Við ræðum hér um plagg sem hefur verið kallað efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem þó hefur ekki komið til neinnar formlegrar umfjöllunar hér inni. Við vitum að ríkisstjórnin segist vera með áætlun og við vitum að stýrivaxtahækkun Seðlabankans er hluti hennar. Að minnsta kosti samkvæmt sumum ráðherrum.

Það hefur komið fram að ekki eru allir á eitt sáttir um þetta, hæstv. fjármálaráðherra segir að stýrivaxtahækkunin sé skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hæstv. utanríkisráðherra segir að þetta sé tillaga ríkisstjórnar og svo kemur hæstv. iðnaðarráðherra sem sagði að þetta ákvörðun Seðlabankans en þeir kusu hins vegar að birta sérstaka fréttatilkynningu um að þetta væri jú víst skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Og þó að þetta væri allt saman trúnaðarmál, þ.e. hið fræga „Letter of Intent“ sem hefur verið nefnt, þá væri þetta eðli málsins samkvæmt ekki lengur trúnaðarmál. Á heimasíðu Seðlabankans kemur fram að í samningsgerðinni í 19. tölulið segi, með leyfi forseta:

„To raise the policy interest rate to 18 percent“ sem mér finnst svona skemmtileg tilvitnun hjá Seðlabankanum en þessi yfirlýsing þeirra þýðir væntanlega að þeir telja sig „de facto“ hafa verið svipta sjálfræði í vaxtaákvörðunum og eru að láta vita af því á heimasíðu sinni og það er auðvitað stórmerkilegt mál því Seðlabankinn á að vera sá sem ákveður vexti í landinu. Þetta er enn og aftur til marks um hið einkennilega stríðsástand sem ríkir milli Seðlabankans, bankastjóra hans og ríkisstjórnarinnar.

Ég velti því fyrir mér úr því að málið er í þessum einkennilega farvegi hvort ekki væri betra að fá breiðari aðkomu að efnahagsáætluninni þar sem jafnvel væri hægt að fá upplýsingar um á hverju hún byggist þannig að við þurfum ekki að reiða okkur á svona óljósar heimildir. Hér kemur hin munnlega geymd inn í og það verður áhugavert fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar að ráða í mismunandi orð manna um þessi mál öllsömul.

Ég er ekki sannfærð um, svo að ég standi við þau orð mín um að ræða efnislega um málið, að þessi vaxtahækkun sé endilega rétta leiðin. Það er kannski erfitt fyrir mig að leggja mat á þetta því ég er ekki hagfræðingur en ég veit að samkvæmt hefðbundnum hagfræðilíkönum þá á að hækka vexti um leið og vart verður við verðbólgu til þess að reyna að berja hana niður og ef vextirnir, nafnvextirnir, eru ekki hækkaðir nægilega mikið þá rýkur verðbólgan upp og það getur orðið til þess að vextir hækka en ekki nægilega til að hamla verðbólgunni, sem getur endað með því að bæði verðbólga og vextir rjúka upp. Við þekkjum þetta auðvitað frá Suður-Ameríku þar sem vextir hafa farið yfir 100% og óðaverðbólga ríkt. Þar hafa hlutirnir farið úr böndunum en samt hafa menn fest sig í líkönin, oft með skelfilegum afleiðingum.

Hér hefur verið gefið til kynna að vaxtahækkuninni sé ætlað að koma jafnvægi á gjaldeyrismarkaðinn. En mér finnst að menn verði að átta sig á því að hér er búið að halda mjög háu vaxtastigi mjög lengi, án þess að það hafi skilað sér með lægri verðbólgu. Mér finnst líka að það þurfi að taka tillit til þess að ýmsir hagfræðingar hafa bent á og talið að í svona skarpri kreppu sé vaxtahækkun óskynsamleg. Vaxtalækkun geti haft betri áhrif því kreppan sé orðin svo djúp. Því auðvitað er það þannig þegar allt kemur til alls, að myntin og gjaldeyrismarkaðurinn snýst um trúverðugleika hagkerfisins og ef vaxtahækkun verður til þess að fyrirtæki fara á hausinn unnvörpum og fólk missir vinnuna unnvörpum þá dregur það úr trúverðugleika hagkerfisins og þá mun slík vaxtahækkun ekki hafa þau áhrif sem henni er ætlað.

Eins og ég sagði hér áðan þá er ég ekki hagfræðingur en mér finnst full ástæða til þess að þingið skoði þessa vaxtahækkun og þá vaxtastefnu sem hér er í gangi. Skoði rökin í málinu og fái kynningu á þessari efnahagsáætlun. Þetta væri t.d. hægt að gera í efnahags- og skattanefnd þingsins. Ekki aðeins vaxtahækkunarkafla meintrar efnahagsáætlunar heldur líka kafla tvö, þrjú, fjögur o.s.frv., sem ég vona að sé búið að skrifa af því við þurfum fyrst og fremst að byggja upp traust. Ekki bara á hagkerfinu heldur líka traust úti í samfélaginu.

Það er alveg rétt sem ýmsir sem hér hafa staðið í dag hafa rætt að traust á stjórnmálamönnum, traust á hagstjórninni, traust á peningamálastefnunni, allt þetta er langt niðri alveg eins og þjóðin er langt niðri. Atvinnuhorfurnar eru slæmar. Spariféð horfið. Skuldbindingar vaxnar mönnum yfir höfuð. Það skiptir máli til þess að byggja upp þetta traust að hér sé gagnsæi í ákvörðunum. Að þetta sé rætt á þinginu og við stöndum ekki hér og bítumst um hver segir hvað, hvernig heldur líka hvað við erum að tala um. Hvert við erum að fara með þessa efnahagsáætlun. Hvað ætlum við að gera? Af því að fólk skilur þessa vaxtahækkun ekki, vaxtahækkun sem kemur eftir að búið er að lækka vexti um þrjú prósentustig og þá kemur skyndilega hækkun um sex prósentustig og enginn áttar sig alveg á því hvaðan þetta kemur. Hver eru rökin fyrir því? Það er það sem við þurfum að ræða og mér finnst ekki hafa komið nægilega skýrt fram, virðulegi forseti.

Það er kallað eftir tillögum og auðvitað liggur það fyrir að það þarf að koma gjaldeyrisviðskiptum í lag. Þetta ástand gengur ekki mikið lengur og við sjáum það á öllum okkar viðskiptum sem eru enn í lamasessi. Við sjáum það líka á stöðu Íslendinga í útlöndum. Núna síðast í morgun voru fulltrúar sambands íslenskra námsmanna erlendis á fundi menntamálanefndar Alþingis og skýrðu frá aðstæðum námsmanna í útlöndum sem ekki eru beysnar.

Auðvitað þarf að koma markaðnum í lag og við þurfum að átta okkur á því hvort þessi vaxtahækkun muni þjóna þeim tilgangi sínum og hvað meira þarf að gera. Það þarf að klára samkomulagið við Breta en ekki undir hvaða kostum sem er. Því það má ekki skuldsetja þjóðina kynslóðir fram í tímann.

Það þarf að taka ákvörðun um endurskoðun bankakerfisins. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að hann væri enn þeirrar skoðunar að þessi ríkisvæðing væri tímabundin og það þyrfti að setja bankana í einkavæðingu um leið og hægt væri. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að læra talsvert af því hvernig fór og ég held að við getum t.d. lært af nágrannaþjóðum okkar, Norðmönnum og Svíum, því eftir bankakrísuna þar í upphafi tíunda áratugarins var ákveðið að ríkið yrði hluthafi í stærri bönkum í þeim löndum, upp á 25–30% hreinlega til að geta haft þar áhrif, ekki til þess endilega til að ráða þar öllu heldur til að geta haft áhrif á það hvert bankarnir stefna. Og þar hefur verið rekin mun skynsamlegri bankapólitík en hér á landi.

Við verðum líka að gæta þess þegar lögð eru fram fjárlög að það má ekki glutra niður velferðarkerfinu. Það má ekki glutra niður menntakerfinu eða menningunni. Ég minni á nýútkomna skýrslu ASÍ um horfurnar í efnahagsmálum þar sem lögð er áhersla á að þetta bitni ekki á velferðarkerfinu. Að þetta komi ekki niður á sveitarfélögunum og jafnvel að sveitarfélögin komi til móts við íbúana með aukinni þjónustu, t.d. með því að afnema þjónustugjöld í skólum, leikskólum og tómstundastarfi. Við vitum hins vegar að á sama tíma er búið að taka út 1.400 millj. kr. framlag frá jöfnunarsjóði og illa horfir fyrir mörgum sveitarfélögum í því árferði sem nú er.

Við þurfum líka að velta fyrir okkur atvinnuástandinu, hvernig hið opinbera geti komið að því að bæta það. Hvort hið opinbera hafi svigrúm t.d. til að fara út í viðhaldsverkefni, atvinnusköpun án þess að ráðist sé í miklar stofnfjárfestingar. Því þó að ástandið sé erfitt má það ekki verða til þess að auka misskiptinguna í samfélaginu. Hún hefur aukist á undanförnum árum og af því að hv. þm. Helgi Hjörvar ræddi áðan um alla þá sem nú kæmu og segðu: „Ég sagði það“, þá er það vissulega rétt. Það er vissulega líka rétt að það hefur verið varað við misskiptingunni og við höfum verið á ansi hraðri leið þangað.

Hér hefur líka verið rætt um fjölmiðla. Ég ætla að ljúka þessu með því að segja frá því að ég er búin að lesa yfirferð þess merka tímarits Séð og heyrt á því ástandi sem nú er. Það er dálítið merkilegt, ég hvet þingmenn til að skoða nýjasta eintakið af því tímariti þar sem er verið að sýna gömul blöð. Sjáið nýja Hummerinn hans. Sjáið nýja flotta húsið hans. Sjáið nýju sundlaugina hans. Við verðum auðvitað að horfa til baka og hugsa. Á hvaða vegferð höfum við verið og ætlum við að halda áfram á sömu braut um leið og við getum? Nú er kominn tími, ekki fyrir Hummera, heldur fyrir félagsleg gildi og fyrir sjálfbæra þróun og þar eigum við mikil sóknarfæri þegar við erum komin í gegnum það ástand sem nú er. En til þess að við komumst í gegnum það þarf að gera þetta ferli gagnsærra. Þingið þarf að koma að því og við þurfum að taka mjög (Forseti hringir.) yfirvegaðar ákvarðanir um peningamálastefnuna og hvert hún stefnir á næstu dögum og mánuðum.