136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ágætu ræðu. Hún vék að því sem lýtur að trúverðugleika hagkerfisins og ég held að hv. þingmaður hafi haft mikið til síns máls. Það gegnir lykilhlutverki við að koma að nýju á gjaldeyrisviðskiptum með þá mynt sem við höfum haft og munum kannski hafa eitthvað áfram. Hún vék líka að stýrivaxtahækkuninni í 18% og því að það kynni að verða til þess að halda aftur af verðbólgu eða þenslu. Það er auðvitað fjarri lagi. Hér er allt í frosti og 18% stýrivextir eru ekki til þess að halda aftur af þenslu eða verðbólgu í samfélaginu.

Ég er hræddur um að 18% stýrivextir séu til þess að bæta upp trúverðugleikaskort gjaldmiðilsins og hagkerfisins. Þannig gjaldi íslenskur almenningur þess í vaxtastigi að við erum að reyna að gera hið ómögulega. Staðreyndin er sú að hér eiga spekúlantar í íslenskum krónum umtalsverðar upphæðir og sennilega umtalsvert meiri upphæðir en þessi mikli áfangi, lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem hér er til sérstakrar umfjöllunar heilan dag á Alþingi. Ef opnað er fyrir gjaldeyrisviðskipti og þeir peningar hverfa allir í burtu þarf enginn að spyrja að leikslokum.

Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þingmann hvort að hún telji það ekki líklegt að 18% stýrivextir séu einmitt kostnaðurinn sem íslenskur almenningur þarf að bera af því að halda úti því sem ekki er hægt að halda úti, þ.e. minnstu flotmynt í heimi sem hefur verið skotspónn alþjóðlegra spekúlanta á fjármálamarkaði (Forseti hringir.) nú um árabil og þeir hafa makað krókinn á og við fáum nú reikninginn fyrir.