136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þessi umræða hefur nú staðið í allan dag og auðvitað af ríku tilefni. Ég ætla ekki að endurtaka það sem aðrir ræðumenn hafa sagt hér í fjölmörgum ræðum í dag að ástandið er auðvitað grafalvarlegt og aðstæðurnar eru þannig að við þurfum að skoða marga hluti upp á nýtt.

Aðstæðurnar eru grafalvarlegar eins og ég segi og ástæðurnar fyrir því eru margar. Ég held hins vegar að það sé ekki uppbyggilegt fyrir okkur að ræða mikið um þessi mál í þáskildagatíð eða viðtengingarhætti eins og mér hefur þótt bera nokkuð við hér í þessari umræðu. Ég held að það sé mikilvægara fyrir okkur að hugsa hver þau verkefni eru sem við stöndum frammi fyrir, hvað við þurfum að gera og hvernig við ætlum að koma okkur út úr þeim vanda sem við blasir.

Það fyrsta sem þarf að takast á við er það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera að undanförnu, að reyna að lágmarka þann skaða sem fjármálakreppan og bankahrunið hafa valdið hér á landi. Að reyna að tryggja eftir mætti að hér starfi áfram bankakerfi. Að reyna með nýjum aðgerðum, m.a. með samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að koma gjaldeyrismarkaði aftur á. Það eru þær aðgerðir sem hægt er að lýsa sem fyrstu skrefunum til að bregðast við vandanum.

Í framhaldinu, þegar við verðum komin yfir erfiðasta hjallann, blasir annað við. Við þurfum að vega og meta hvað fór úrskeiðis. Við þurfum bæði að fara yfir hvað gerðist á hinum alþjóðlegu fjármálamörkuðum sem hafði svo mikil áhrif á okkur og hefur haft áhrif út um allan heim. Menn hafa lýst þessu þannig að hér sé um að ræða verstu fjármálakreppu í hundrað ár og þótt ekki sjái fyrir endann á henni hugsa ég að hægt sé að leggja slíkt mat á stöðuna.

Við þurfum líka að meta og skoða hvaða þættir gerðu það að verkum að við Íslendingar vorum jafnberskjaldaðir fyrir áhrifum hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu og raun ber vitni. Þó að orsakir þeirra atburða sem átt hafa sér stað á undanförnum vikum séu að miklu leyti áhrif hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu getum við ekki horft fram hjá því að ýmsir innlendir þættir ollu því að við vorum ef til vill viðkvæmari en aðrir. Það þarf að meta og fara yfir.

Síðasta og kannski mikilvægasta verkefnið er að reyna að horfa til framtíðar og meta hvernig við ætlum að byggja hér upp samfélag til framtíðar sem getur boðið landsmönnum upp á þau lífskjör sem við viljum búa við, lífskjör sem eru sambærileg við það sem gerist í löndunum í kringum okkur, lífskjör sem gera það eftirsóknarvert að búa hér á landi. Við sem stjórnmálamenn hljótum að móta framtíðarstefnu okkar sem fellur að þeim markmiðum um að Ísland verði sambærilegt öðrum vestrænum ríkjum, bjóði upp á sambærileg lífskjör bæði hvað varðar efnisleg gæði og aðstæður að öðru leyti. Það er alveg ljóst að við þurfum að endurmeta marga þætti þegar kemur að þeirri stefnumótun. Við þurfum að skoða hug okkar, skoða hvað við höfum verið að gera, hvað betur má fara og leita leiða til þess að finna lausnir í því sambandi.

Ég tek eftir því í umræðunni, bæði hér í dag og í fjölmiðlum, að margir vilja líta til Evrópusambandsins og evruaðildar sem einhvers konar töfralausnar í þessu sambandi. Flestir viðurkenna eins og eðlilegt er að aðild að Evrópusambandinu og upptaka evrunnar fela ekki í sér lausn á þeim bráðavanda sem við eigum nú við að stríða. Samt er mjög stutt í að harðir áhugamenn um Evrópusambandið fari að tala um Evrópusambandsaðildina og evruupptöku í samhengi við þau vandamál sem við glímum nú við frá degi til dags. Ég held að það sjónarmið byggi meira á óskhyggju en raunhæfum kostum. Ég held að hvernig sem við skoðum þetta þurfum við að taka sjálf á okkar málum til þess að ná okkur upp úr þeim vanda sem við eigum í. Við getum ekki leitað til Evrópusambandsins eða Myntbandalags Evrópu og sagt: Þar er lausnin. Við þurfum sjálf að taka til hjá okkur og koma á þeim stöðugleika sem nauðsynlegur er til þess að hér geti þrifist öflugt efnahagslíf.

Evruaðildin er þar að auki ekki eitthvað sem menn panta og fá í hraðpósti. Evrópusambandsaðild gerist ekki á einni nóttu. Sama þótt menn vilji ákafir komast þar inn þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Það þarf að gera samkomulag við Evrópusambandið. Það þarf að fara í gegnum ákveðið ferli þar innan dyra. Hér á landi þurfa menn auðvitað að hugsa til þess að Evrópusambandsaðild er ekki möguleg nema að við förum í gegnum ákveðnar breytingar á stjórnarskrá okkar og öðrum slíkum þáttum. Það er því sama hversu ákaft menn vilja komast inn. Það gerist ekki einn, tveir og þrír.

Sama á við um evruna því að evruaðild byggir á mjög ströngum skilyrðum t.d. um að stöðugleika í efnahagsmálum sé náð áður en farið er inn en ekki eftir að inn er komið. Skilyrðin lúta auðvitað að ríkisfjármálum með kröfum um fjárlagahalla. Skuldastaða hins opinbera má ekki fara yfir tiltekin mörk. Það byggir líka á atriðum sem varða peningamálastjórn eins og um vexti sem mega ekki vera yfir ákveðnu meðaltali þeirra landa sem búa við lægsta verðbólgu. Verðbólgan sjálf má ekki vera nema 1,5% yfir þeirri viðmiðun sem er meðaltal þeirra þriggja landa sem búa við minnsta verðbólgu innan evrusvæðisins. Eins er gerð krafa um að gengissveiflur hafi verið innan tiltekinna marka í aðdraganda inngöngu. Það er því ljóst, hvernig sem menn líta á málið, að menn verða að ná stöðugleika hvort sem þeim líkar betur eða verr og stöðugleikinn þarf að koma á undan evruaðild en ekki dugar að bíða þangað til að evruaðildin er orðin að veruleika.

Við Íslendingar erum harla langt frá því að uppfylla skilyrði Maastricht-samkomulagsins eins og staðan er í dag. Þær hremmingar sem gengið hafa yfir okkur síðustu vikurnar hafa gert það að verkum að við erum enn lengra frá því að ná Maastricht-skilyrðunum en áður.

Ég held hins vegar, fyrst ég ræði hér um Maastricht-skilyrðin, að full ástæða sé til að skoða þau bæði fyrir stuðningsmenn og andstæðinga Evrópusambandsins og upptöku evrunnar og jafnvel að sameinast um að gera þau að markmiðum sem við viljum stefna að. Ég held að báðir hópar ættu að geta sameinast um að ná því að uppfylla Maastricht-skilyrðin en auðvitað verðum við að hafa í huga að það krefst gríðarlegra erfiðra aðgerða, bæði á sviði ríkisfjármála og peningamála.

Ég held að það væri nær að gera það frekar en ætla að útkljá deilurnar í dag sem vissulega eru hjá þjóðinni um hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Ég tel að brýnna að við náum saman um að stefna að Maastricht-skilyrðunum eins og forsætisráðherra benti reyndar á í viðtali nú í vikunni. Við eigum að stefna að því að þeir meginhópar sem takast á í Evrópumálunum sameinist um meginsjónarmiðin. Harðir Evrópusinnar ættu að átta sig á því að ef við erum ekki fær um að sameinast um (Forseti hringir.) leiðina að Maastricht-skilmálunum er tómt mál að tala um Evrópusambandið og myntsamstarfið sem framtíðarlausn á okkar málum.