136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Þar heyrist því haldið fram enn einu sinni að umræðan um Evrópusambandið eigi ekki við til að leysa vandamál dagsins í dag.

Við í Samfylkingunni höfum heyrt þá röksemdafærslu í níu ár eða frá stofnun Samfylkingarinnar árið 1999 og í kosningunum þá. Þessi dagur og vandamál hans eru farin að vera býsna langdregin þegar dagarnir eru komnir á fjórða þúsundið. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki í ljósi sögunnar að farsælast hefði verið fyrir Ísland að taka þá stefnu þegar árið 1999 að uppfylla fyrsta Maastricht-skilyrðið, sem er auðvitað að ganga inn í Evrópusambandið, og leitast síðan við að uppfylla hin skilyrðin um stöðugleika.

Ég spyr hv. þingmann einnig hvort hann telji það ekki óhóflega bjartsýni í þeim aðstæðum sem við erum í núna að við getum yfir höfuð rætt að við munum ná Maastricht-skilyrðunum um stöðugleika í ríkisfjármálunum á næstu missirum eins og þjóðhagsspáin blasir við okkur.