136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum greinilega sammála, ég og hv. þingmaður, um að Maastricht-skilyrðin eru ekki innan seilingar og í nálægri framtíð hljótum við að hafa önnur og raunhæfari keppikefli. Það er skoðun mín að við ættum að keppa að því að fara í Evrópusambandið núna m.a. vegna þess að með því komumst við inn í EMR II, fyrra stig í myntsamstarfinu. Það gæti verið okkur styrkur í þeim aðstæðum sem við erum í nú.

Um fortíðina er ég algjörlega ósammála hv. þingmanni. Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að hafa tvær skoðanir um þetta efni: Annars vegar að við eigum að vera aðilar að evrópska markaðnum og þar með að Evrópusambandinu, evrunni, evrópska seðlabankanum og öllu því sem fylgir því að vera þátttakandi á 400 milljóna manna markaði.

Hins vegar getur maður verið þeirrar skoðunar að hér eigi að reka einangrað íslenskt samfélag með sérstökum gjaldmiðli sem er þá handstýrt eins og gert var stundum með ágætum árangri á árunum áður og byggir fyrst og fremst á frumgreinum um framleiðslu og þess háttar. En að reyna að gera bæði í einu, að spila á hinum stóra alþjóðlega markaði í þeim hörðu viðskiptum sem þar eiga sér stað með pínulitla mynt og veikburða eftirlitsstofnanir, reynslulítinn seðlabanka og litla varasjóði, er að reyna að gera hið ómögulega.

Þess vegna hefði okkur farnast betur ef við hefðum tekið annan hvorn kostinn, að einangra okkur sem þjóðríki og handstýra hér framleiðslusamfélagi upp á gamla mátann eða að taka skrefið alla leið og verða fullgildir aðilar að Evrópusamstarfinu, uppfylla Maastricht-skilyrðin og innleiða hér þá mynt sem við þurftum og fá þann bakstuðning frá Seðlabankanum sem við þurftum. (Forseti hringir.) Valkostirnir til framtíðar eru reyndar einnig þessir tveir.